Utanlandsferðir barna
Samþykkisyfirlýsing
Með samþykkisyfirlýsingunni veita forsjáraðilar heimild fyrir því að barnið ferðist
einsamalt eða í fylgd tilgreinds aðila
til tiltekins lands eða tiltekinna landa
á tilgreindu tímabili
Ef um er að ræða fleiri en eitt barn, er gerð sérstök yfirlýsing fyrir hvert þeirra.
Mikilvægt er að það sem er skráð í samþykkisyfirlýsingunni sé rétt.
Aðilar geta einnig útbúið eigin yfirlýsingu eða heimild vegna ferðalagsins og aðlagað texta að sínum þörfum. Æskilegt er að textinn sé á ensku eða tungumáli þess lands sem ferðast er til.
Vottun samþykkisyfirlýsingar
Gott er að kynna sér hvaða kröfur eru gerðar til skjala í landinu sem ferðast er til. Í mörgum tilvikum er nóg að láta tvo aðila votta undirskrift forsjáraðila. Þá getur verið gagnlegt að forsjárvottorð fylgi yfirlýsingunni til sönnunar þess að tilgreindir aðilar fari með forsjá barnsins.
Sé þess óskað er einnig hægt að fá yfirlýsinguna vottaða hjá sýslumanni og jafnvel staðfesta af utanríkisráðuneytinu til að tryggja að skjal verði tekið gilt af erlendu stjórnvaldi.
Til að sýslumaður (lögbókandi) geti vottað undirskriftir á samþykkisyfirlýsingu, þurfa forsjáraðilar að
mæta í eigin persónu til sýslumanns
framvísa löglegum persónuskilríkjum (vegabréf, ökuskírteini eða nafnskírteini)
framvísa forsjárvottorði
Staðfesting utanríkisráðuneytisins á lögmæti vottunar sýslumanns (apostille stimpill) tryggir enn frekar að skjalið verði tekið gilt af erlendu stjórnvaldi. Nánari upplýsingar um staðfestingu utanríkisráðuneytisins er að finna á vef Stjórnarráðsins.
Þjónustuaðili
Sýslumenn