Þjónusta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd
Lok þjónustu
Þegar einstaklingar hafa fengið endanlega synjun
Útlendingur sem hefur fengið endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd á rétt á þjónustu þar til hann hefur yfirgefið landið en þó að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin varð endanleg á stjórnsýslustigi. Að þeim tímafresti loknum falla réttindin niður, að undanskilinni bráðaheilbrigðisþjónustu.
Ekki er þó heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir.
Þegar umsækjandi er ríkisborgari EES/EFTA-ríkis eða kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsóknin hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus fellur rétturinn til þjónustu niður þegar Útlendingastofnun hefur synjað umsókn um alþjóðlega vernd.
Frestun á niðurfellingu réttinda
Lögreglu er heimilt að fresta niðurfellingu réttinda, ef það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða og útlendingur hefur sýnt samstarfsvilja við framkvæmd ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið. Þetta gildir þó ekki um ríkisborgara EES/EFTA-ríkja og ríkja sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsókn viðkomandi hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus.
Við mat á því hvort fresta skuli niðurfellingu réttinda skal lögregla meðal annars líta til þess hvort útlendingi hafi ekki tekist að fara sjálfviljugur af landi brott innan tilgreinds frests vegna aðstæðna sem ekki eru á ábyrgð hans, svo sem vegna ómöguleika við að afla ferðaskilríkja, fötlunar hans eða vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna.
Vinnumálastofnun getur ákveðið að fresta skuli brottfalli þjónustu við einstakling sem sótt hefur um aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar.
Þegar einstaklingar draga umsókn sína um vernd til baka
Þjónusta fellur niður þremur dögum eftir að umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur dregið umsókn sína til baka.
Vinnumálastofnun getur ákveðið að fresta skuli brottfalli þjónustu við einstakling sem sótt hefur um aðstoð til sjálfviljugrar heimfarar. Þá er Vinnumálastofnun heimilt að fresta brottfalli þjónustu við einstakling vegna atvika sem ekki eru á hans ábyrgð.
Þegar einstaklingar fá veitta vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi
Þjónusta fellur niður eigi síðar en átta vikum frá birtingu ákvörðunar um að veita einstaklingi vernd eða þremur dögum eftir að einstaklingi, sem veitt hefur verið vernd, býðst annað húsnæði á vegum opinbers aðila.
Vinnumálastofnun getur ákveðið að fresta skuli brottfalli þjónustu við einstakling sem samþykkt hefur annað húsnæði á vegum opinbers aðila.
Þjónustuaðili
Vinnumálastofnun