Fara beint í efnið
Útlendingastofnun Forsíða
Útlendingastofnun Forsíða

Útlendingastofnun

Vegna aðstoðar við sjálfviljuga heimför til Venesúela

16. nóvember 2023

Unnið er að því að afla nánari upplýsinga

Flag-map of Venezuela.svg

Eftirfarandi tilkynning hefur verið birt á vef dómsmálaráðuneytisins:

Útlendingastofnun og embætti ríkislögreglustjóra, í samvinnu við Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu (Frontex), aðstoðuðu á miðvikudag 180 venesúelska ríkisborgara við að snúa aftur heim til Venesúela í sjálfviljugri heimför. Fólkið hafði dvalið hér á landi sem umsækjendur um alþjóðlega vernd en ýmist verið synjað eða dregið umsóknir sínar til baka. Í hópnum voru 155 fullorðnir og 25 börn.

Flogið var frá Íslandi til Venesúela í beinu leiguflugi á vegum Frontex, sem veitti íslenskum stjórnvöldum aðstoð við undirbúning og framkvæmd ferðarinnar. Með um borð var starfsfólk á vegum Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra, hjúkrunarfræðingur og sjálfstæður eftirlitsaðili á vegum Frontex, auk spænskrar áhafnar.

Flugið gekk vel og farþegarnir gengu heilu og höldnu frá borði og inn í flugstöð á miðvikudagskvöld að íslenskum tíma. Þar skildu leiðir Venesúelabúanna og starfsfólksins frá Frontex og Íslandi. Síðar bárust þær fregnir frá einstaklingum innan hópsins að fólkið hafi ekki fengið að fara frjálst ferða sinna. Íslensk stjórnvöld og Frontex vinna nú að því að afla nánari upplýsinga um fólkið og stöðu þeirra og verða veittar nánari upplýsingar um leið og hægt er.