Vegna aðstoðar við heimför venesúelskra ríkisborgara
4. desember 2023
Haft var samband við farþegana til að afla upplýsinga um afdrif þeirra
Eftirfarandi tilkynning hefur verið birt á vef dómsmálaráðuneytisins:
Þann 15. nóvember 2023 aðstoðuðu Útlendingastofnun og embætti ríkislögreglustjóra, í samvinnu við Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu (Frontex), 180 venesúelska ríkisborgara við að snúa aftur heim til Venesúela í sjálfviljugri heimför. Fólkið hafði dvalið hér á landi sem umsækjendur um alþjóðlega vernd en ýmist verið synjað eða dregið umsóknir sínar til baka. Í hópnum voru 155 fullorðnir og 25 börn. (Greint var frá þessu flugi í fyrri frétt á vef ráðuneytisins.)
Flogið var frá Íslandi til Venesúela í beinu leiguflugi á vegum Frontex, sem veitti íslenskum stjórnvöldum aðstoð við undirbúning og framkvæmd ferðarinnar. Með um borð var starfsfólk á vegum Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra, hjúkrunarfræðingur og sjálfstæður eftirlitsaðili á vegum Frontex, auk spænskrar áhafnar.
Flugið gekk vel og farþegarnir gengu heilu og höldnu frá borði og inn í flugstöð í Caracas í Venesúela að kvöldi 15. nóvember að íslenskum tíma. Þar skildu leiðir Venesúelabúanna og starfsfólksins frá Frontex og Íslandi. Síðar bárust þær fregnir frá einstaklingum innan hópsins að fólkið hafi ekki fengið að fara frjálst ferða sinna.
Dómsmálaráðuneytið, Útlendingastofnun og embætti ríkislögreglustjóra hafa smátt og smátt fengið skýrari mynd af því sem gerðist á flugvellinum í Caracas eftir að venesúelsku farþegarnir gengu frá borði. Sendur var tölvupóstur á spænsku til þeirra sem Útlendingastofnun hafði netföng hjá og náði hann til 173 einstaklinga. Þegar hafa borist 83 svör sem ná til 99 einstaklinga. Þeir sem hafa svarað segjast vera frjálsir ferða sinna og vera með venesúelsk vegabréf sín. Nær allir voru komnir á áfangastað eða á leið þangað þegar þeir svöruðu póstinum, auk þess sem einn var kominn til annars ríkis. Þá segjast nær allir hafa ferðastyrk íslenskra stjórnvalda í fórum sínum; þrír segja að peningarnir hafi verið teknir af þeim og fjórir til viðbótar segja að hluti peninganna hafi verið tekinn. Loks liggur fyrir að við komuna voru margir spurðir ítarlega um persónulega hagi, samskipti við íslensk stjórnvöld og alþjóðastofnanir. Einhverjir sögðust hafa verið látnir skrifa undir skjöl en ekkert hefur komið fram um hvað var á þeim skjölum.
Í aðdraganda ferðarinnar áttu íslensk stjórnvöld í samskiptum við sendiherra Venesúela gagnvart Íslandi í þeim tilgangi að afla lendingarleyfis. Lögð var á það áhersla í öllum samskiptum að um væri að ræða sjálfviljuga heimför ríkisborgara Venesúela. Ekkert kom fram í samskiptunum sem tilefni gaf til að ætla að um yrði að ræða annað inngrip vegna komu fólksins en hefðbundið landamæraeftirlit. Hópurinn virðist hins vegar ekki hafa sætt hefðbundnu landamæraeftirliti. Þess í stað hafi fólkið verið flutt í móttökumiðstöð þar sem m.a. voru gerð covid próf og fólk spurt út í ferðir sínar áður en þeim var veitt landganga og sleppt eftirum sólarhring.
Áréttað er að fyrir umrætt leiguflug til Caracas höfðu íslensk stjórnvöld þegar veitt 135 ríkisborgurum Venesúela aðstoð við sjálfviljuga heimför í ár. Þessir einstaklingar ferðuðust allir með hefðbundnu áætlunarflugi án neinna vandræða við komuna til Caracas. Þá liggur fyrir að fjölmennur hópur ríkisborgara Venesúela hefur þegar óskað eftir eða kann á komandi mánuðum að óska eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför. Það er umfangsmikið verkefni fyrir íslensk stjórnvöld að auðvelda heimför þessara einstaklinga. Í því skyni verður m.a. stefnt að öðru leiguflugi í janúar og verða þátttakendur í því flugi upplýstir um að móttökur í Caracas gætu orðið svipaðar og í leigufluginu 15. nóvember sl.