Fara beint í efnið

Flestar umsóknir um vernd frá ríkisborgurum Venesúela

24. janúar 2022

Umsóknum um alþjóðlega vernd fjölgaði um þriðjung milli ára

Samsetning umsækjenda 2021

Á liðnu ári barst Útlendingastofnun 871 umsókn um alþjóðlega vernd. Það eru þriðjungi fleiri umsóknir en árið 2020 þegar umsóknir voru 654.

Fjölgunin skýrist fyrst og fremst af miklum fjölda umsækjenda frá Venesúela en 40% allra umsækjenda komu þaðan, samtals 360 einstaklingar. Ríkisborgarar Venesúela voru einnig stærsti hópur umsækjenda árið 2019 en þá voru þeir helmingi færri eða 180. Árið 2020 fækkaði þeim í rúmt hundrað en komur þeirra lögðust nánast af milli apríl 2020 og apríl 2021 vegna ferðatakmarkana af völdum Covid-19.

Einn af hverjum fimm umsækjendum höfðu þegar fengið veitta alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki áður en þeir sóttu um vernd hér, langflestir í Grikklandi. Hlutfall umsækjenda um vernd frá ríkjum á lista yfir örugg upprunaríki var 3%.

Allt í allt voru umsækjendur af 46 ólíkum þjóðernum. Rúmur helmingur umsækjenda voru karlkyns og um þriðjungur voru börn. Fjórtán einstaklingar kváðust vera fylgdarlaus börn.