Fara beint í efnið

Umsóknir um fjölskyldusameiningar Palestínumanna njóta ekki lengur forgangs

11. mars 2024

160 leyfi veitt frá því í október

Dalvegur 18

Síðan um miðjan október 2023 hafa umsóknir palestínskra ríkisborgara um fjölskyldusameiningu notið forgangs hjá Útlendingastofnun. For­gang­ur­inn fólst í því að umsóknirnar voru tekn­ar fram fyr­ir umsókn­ir um sömu leyfi frá rík­is­borg­ur­um annarra ríkja, sem fyr­ir vikið færðust aft­ar í röðina.

Þegar sú ákvörðun var tekin biðu afgreiðslu hjá stofnuninni um 150 umsóknir um fjölskyldusameiningu frá palestínskum ríkisborgurum. Um helmingur umsóknanna var þá þegar eldri en sex mánaða.

Frá því í október 2023 hafa 280 dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við flóttamenn á Íslandi verið veitt. Þar af 160 til ríkisborgara Palestínu og 120 til annarra ríkisborgara, einkum Sýrlendinga, Venesúelabúa og Sómala.

Um 20 umsóknir um fjölskyldusameiningu við flóttamenn frá palestínskum ríkisborgurum eru nú í vinnslu hjá Útlendingastofnun en auk þeirra hefur mikill fjöldi umsókna borist frá Palestínumönnum sem ekki falla undir réttinn til fjölskyldusameiningar samkvæmt lögum. Rúmlega 320 ríkisborgarar annarra ríkja bíða eftir afgreiðslu umsókna um fjölskyldusameiningu við flóttamenn, einkum frá Sýrlandi, Sómalíu og Afganistan.

Í ljósi þessa og að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið hefur verið ákveðið að umsóknir um fjölskyldusameiningar frá Palestínumönnum njóti ekki lengur forgangs fram fyrir umsóknir annarra. Þetta gildir um umsóknir sem berast frá og með deginum í dag.