Þjónusta við umsækjendur um vernd færð til Vinnumálastofnunar
2. september 2022
Vinnumálastofnun hefur tekið við því hlutverki að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd þjónustu.
Þann 1. júlí síðastliðinn tók Vinnumálastofnun við því hlutverki af Útlendingastofnun að veita umsækjendum um vernd þjónustu. Flutningur verkefnisins milli stofnananna átti sér stað í kjölfar þess að verkefnið færðist frá dómsmálaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins með forsetaúrskurði þann 28. nóvember 2021, sjá eldri frétt.
Þrettán starfsmenn Útlendingastofnunar færðust yfir til Vinnumálastofnunar til þess að sinna verkefninu auk þess sem Vinnumálastofnun tók yfir samninga Útlendingastofnunar við sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Reykjanesbæ og Hafnarfjarðarbæ um þjónustu við umsækjendur.
Aðkoma Útlendingastofnunar að málum umsækjenda um alþjóðlega vernd einskorðast nú við afgreiðslu umsókna og útgáfu dvalarleyfa og ferðaskilríkja til þeirra sem fá jákvæða niðurstöðu.