Fara beint í efnið

Nýr þjónustuvefur kominn í loftið

20. október 2023

Svarar algengustu spurningunum sem stofnuninni berast

Skjáskot af þjónustuvef Útlendingastofnunar

Nýr þjónustuvefur fyrir umsækjendur og aðra sem þurfa á þjónustu Útlendingastofnunar að halda er kominn í loftið. Vefnum er ætlað að auka möguleika notenda til sjálfsafgreiðslu með því að birta skýr og hnitmiðuð svör við algengum spurningum. Sérfræðingar stofnunarinnar vinna enn að því að svara algengum spurningum og verður þeim bætt við vefinn jafnóðum.

Á þjónustuvefnum er einnig vefform til að senda fyrirspurnir, sem berast beint í viðeigandi pósthólf stofnunarinnar eftir málefnum. Til að auka sjálfsafgreiðslu enn frekar gefur fyrirspurnarformið yfirlit yfir spurningar, sem þegar hefur verið svarað, um það viðfangsefni sem notandinn slær inn.

Þjónustuvefurinn er nýjasta afurðin af samvinnu Útlendingastofnunar og Stafræns Íslands en innleiðing vefsins er eitt af stafrænu skrefunum. Næst á dagskrá í samstarfinu við Stafrænt Ísland er að taka í gagnið spjallmenni og Mínar síður á Ísland.is.