Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Útlendingastofnun Forsíða
Útlendingastofnun Forsíða

Útlendingastofnun

Mikil fjölgun umsókna um dvalarleyfi fyrir námsmenn

5. september 2025

80% umsókna sem bárust innan frests hafa verið afgreiddar

Umsóknir um ný dvalarleyfi fyrir námsmenn voru 40% fleiri í ár en á síðasta ári. Á tímabilinu frá mars til ágúst bárust Útlendingastofnun 740 umsóknir um fyrstu dvalaleyfi vegna haustannar en á sama tímabili árið 2024 bárust stofnuninni um 530 umsóknir. Um er að ræða aukningu sem ekki var fyrirséð en fjöldi umsókna um fyrstu dvalarleyfi fyrir námsmenn stóð nánast í stað milli áranna 2023 og 2024.

Umsækjendur um dvalarleyfi þurfa að leggja fram margvísleg gögn með umsókn sinni og er það hlutverk Útlendingastofnunar að yfirfara hvert mál á einstaklingsgrundvelli. Í því felst meðal annars að ganga úr skugga um að umsækjandi sé sá sem hann segist vera, gefi réttar upplýsingar um tilgang dvalarinnar á Íslandi og geti framfleytt sér hér á landi. Afgreiðslutími umsókna er misjafn og fer fyrst og fremst eftir því hvort fullnægjandi gögn fylgi umsóknum. Þegar óska þarf eftir viðbótargögnum eða skýringum lengist afgreiðslutíminn.

Undanfarin ár hefur Útlendingastofnun gefið það út að til að tryggt sé að dvalarleyfi námsmanns verði afgreitt áður en skólahald hefjist á haustönn þurfi umsókn og fullnægjandi fylgigögn að berast í síðasta lagi 1. júní. Um 60% umsóknanna í ár (455 af 740) barst í tæka tíð og hafa um 80% þeirra þegar verið afgreiddar. Þær umsóknir sem ekki hafa verið afgreiddar hafa flestar krafist ítarlegri skoðunar vegna ófullnægjandi gagna. 285 umsóknir fyrir haustönn bárust eftir 1. júní og hefur um þriðjungur þeirra þegar verið afgreiddur.

Mikilli og ófyrirséðri fjölgun umsókna um dvalarleyfi fyrir námsmenn fylgir aukið álag á Útlendingastofnun, sem erfitt er að ráða við einkum yfir sumartímann. Ljóst er að Útlendingastofnun mun ekki geta tryggt að dvalarleyfi námsmanna verði áfram afgreidd tímanlega áður skólahald hefst öðruvísi en að færa umsóknarfrestinn framar. Nánari upplýsingar verða birtar á vef stofnunarinnar síðar.