Mat á aðstæðum í Venesúela
14. apríl 2023
Útlendingastofnun telur aðstæður í Venesúela nú ekki þær sömu og þegar úrskurður kærunefndar útlendingamála var kveðinn upp í júlí 2022
Útlendingastofnun hefur að undanförnu rýnt nýjustu heimildir og skýrslur erlendra ríkja og alþjóðlegra stofnana um aðstæður í Venesúela. Afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd frá ríkisborgurum Venesúela hefur að mestu legið niðri á meðan. Það er mat stofnunarinnar að nýjustu upplýsingar beri það með sér að aðstæður í Venesúela nú séu ekki þær sömu og voru uppi þegar úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 231/2022 var kveðinn upp í júlí árið 2022.
Í úrskurði sínum taldi kærunefnd útlendingamála að alvarlegt efnahagsástand í Venesúela og skortur á aðgengi almennings að fæðu, hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu hafi stafað fyrst og fremst af aðgerðum stjórnvalda en ekki af utanaðkomandi þáttum. Taldi nefndin að þegar saman legðust markvissar aðgerðir stjórnvalda til að bæla niður andstöðu í landinu, alvarlegt efnahagsástand þar sem laun dygðu ekki til að uppfylla grunnþarfir almennings í landinu, skortur á hreinu drykkjarvatni, há glæpatíðni, skortur á lögregluvernd og algert hrun réttarkerfisins gætu aðstæður einstaklinga við endursendingu til Venesúela náð því marki að rétt væri að veita þeim viðbótarvernd hér á landi.
Útlendingastofnun telur, á grundvelli nýjustu gagna um ástandið í Venesúela, að almennar aðstæður í landinu nái ekki því alvarleikastigi að þær einar og sér eigi að leiða til þess að allir sem staddir eru í Venesúela eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð vegna aðstæðna sem stjórnvöld hafa eingöngu eða að mestu leyti valdið. Af gögnunum verður jafnframt ekki ráðið að bágt efnahags- og mannúðarástand sé að mestu leyti vegna aðgerða stjórnvalda heldur sé um að ræða orsakir sem rekja megi til flókins samspils margra þátta. Stjórnvöld hafi enn fremur veitt almennum borgurum landsins aðstoð með matarúthlutunum og peningagreiðslum auk þess sem alþjóðastofnanir og mannúðarsamtök hafa átt í samvinnu við stjórnvöld um að veita verst settu íbúum landsins mannúðaraðstoð.
Gögnin bera með sér að aðstæður hvers og eins í Venesúela séu breytilegar og beri ekki með sér að allir íbúar landsins líði alvarlegan skort sem sé ósamrýmanlegur mannlegri reisn. Það er því mat Útlendingastofnunar að þar sem ástandið í Venesúela fer batnandi, ásamt því að stjórnvöld hafi sýnt vilja og getu til að bæta aðstæður einstaklinga í landinu, að aðstæður nú séu ekki þær sömu og voru uppi þegar úrskurður kærunefndar útlendingamála var kveðinn upp í júlí árið 2022 og því þurfi að meta hverja og eina umsókn út frá einstaklingsbundnum aðstæðum og fyrirliggjandi heimildum um ástandið nú. Afgreiðsla umsókna um vernd frá ríkisborgurum Venesúela hefur þegar hafist að nýju.
Dæmi um heimildir