Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Útlendingastofnun Forsíða
Útlendingastofnun Forsíða

Útlendingastofnun

Í tilefni umræðu um úrskurð kærunefndar útlendingamála

26. maí 2025

Ákvörðun um frávísun endurtekinnar umsóknar staðfest

Vegna umræðunnar í kjölfar úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli fylgdarlauss drengs frá Kólumbíu vill Útlendingastofnun koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Það er ekki rétt að umsókn drengsins um vernd hafi aldrei verið skoðuð efnislega af stjórnvöldum. Málsástæður hans voru metnar á sjálfstæðan hátt þegar hann var hér á landi ásamt föður sínum og systrum, í samræmi við reglur laga um útlendinga og að teknu tilliti til ákvæða barnaverndarlaga og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna.

Þegar drengurinn sótti síðar um vernd sem fylgdarlaust barn var staða hans vissulega önnur en áður. Eftir rannsókn Útlendingastofnunar var niðurstaðan að sú breyting væri þó ekki þess eðlis að hún breytti fyrri ákvörðun stofnunarinnar um að synja umsókn hans um alþjóðlega vernd. Endurtekinni umsókn hans var því vísað frá.

Kærunefnd útlendingamála hefur nú staðfest þessa niðurstöðu og úrskurðað að drengurinn uppfylli ekki skilyrði laga til að fá alþjóðlega vernd.

Skilyrði fyrir alþjóðlegri vernd

Það er mikilvægt að taka fram að ekki er deilt um það að aðstæður drengsins í heimalandi séu erfiðar. Engu að síður er ekki fallist á að hann eigi á hættu ofsóknir eða ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í heimalandi en það eru skilyrðin sem þarf að uppfylla til að fá alþjóðlega vernd. Einnig var ekki talið að hann uppfyllti skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna.

Þessi niðurstaða er fengin á grundvelli þeirra gagna sem voru lögð fram í málinu og mati á aðstæðum í Kólumbíu.

Barnaverndaryfirvöld taka við máli

Þegar um heimfylgd fylgdarlausra barna er að ræða er vandað til verka til að tryggja að tekið sé á móti þeim með viðeigandi hætti. Íslensk barnaverndaryfirvöld bera ábyrgð á að tryggja hagsmuni drengsins á meðan hann er staddur hér á landi og barnaverndaryfirvöld í Kólumbíu munu taka við ábyrgð á máli hans eftir að hann kemur þangað til lands.

Það er mikilvægt að hafa í huga að þótt drengurinn segist vilja dvelja hér á landi og hér sé fjölskylda sem vilji sjá um hann, þá á hann foreldra í heimalandi. Hvorki íslensk né kólumbísk barnaverndaryfirvöld hafa svipt þau forsjá.

Að lokum er rétt að taka fram að það er eðlilega þungbært að fá aðra niðurstöðu í máli sínu en vonir stóðu til. Þegar endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi liggur fyrir þarf því að hafa hugfast að það getur gert viðkvæma stöðu barns enn erfiðari að ýtt sé undir væntingar sem ekki verða uppfylltar.