Fara beint í efnið
Útlendingastofnun Forsíða
Útlendingastofnun Forsíða

Útlendingastofnun

Breytingar á lögum um útlendinga

8. ágúst 2023

Lengri gildistími leyfa og ríkari réttur til fjölskyldusameiningar

Alþingi

Tekið hafa gildi breytingar á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Breytingarnar eru að mestu ívilnandi fyrir umsækjendur um dvalarleyfi og dvalarleyfishafa hér á landi. Vefur Útlendingastofnunar hefur þegar verið uppfærður til samræmis við gildandi lög en helstu breytingar eru taldar upp hér að neðan.

Dvalarleyfi á grundvelli atvinnu

  • Dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar má nú veita til fjögurra ára í stað tveggja ára.

  • Dvalarleyfi fyrir íþróttafólk má nú veita til tveggja ára í stað eins árs.

  • Dvalarleyfi fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings má nú veita í eitt ár í stað sex mánaða.

  • Dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki má nú endurnýja til tveggja ára í stað eins árs auk þess sem ekki verður lengur gerð krafa um að útlendingur, sem hefur haft dvalarleyfi á þessum grundvelli, þurfi að dvelja samfellt tvö ár erlendis áður en hann getur sótt um að nýju.

  • Handhafa dvalarleyfis á grundvelli sérfræðiþekkingar er nú heimilt að veita dvalarleyfi til eins árs, þegar slit verður á ráðningarsambandi, svo viðkomandi geti leitað sér starfs á grundvelli sérþekkingar sinnar.

  • Handhafa dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki er nú heimilt að veita dvalarleyfi til sex mánaða, þegar slit verður á ráðningarsambandi, svo viðkomandi geti leitað sér að öðru starfi.

  • Dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og dvalarleyfi fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings fylgir nú réttur til fjölskyldusameiningar við maka, börn og foreldra eldri en 67 ára.

Dvalarleyfi á grundvelli náms og menningarskipta

  • Doktorsnemar mega nú vera staddir hér á landi þegar þeir sækja um dvalarleyfi.

  • Dvalarleyfi útlendings, sem lokið hefur háskólanámi hér á landi, má nú endurnýja í allt að þrjú ár frá útskriftardegi til atvinnuleitar hérlendis á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar. Sú tímalengd var sex mánuðir áður.

  • Dvalarleyfi vegna náms fylgir nú réttur til fjölskyldusameiningar við maka, börn og foreldra eldri en 67 ára fyrir alla námsmenn.

  • Dvalarleyfi vegna náms fylgir nú réttur til að vinna allt að 22,5 klukkustundir á viku (60% starf) í stað 15 klukkustunda áður (40% starf).

  • Dvalarleyfi á grundvelli samnings um vistráðningu (au pair) á heimili fjölskyldu hér á landi má nú endurnýja einu sinni í eitt ár.

Dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar

  • Dvalarleyfi fyrir börn er nú heimilt að veita börnum sem eru fædd hér á landi jafnvel þótt foreldrar þeirra séu handhafar dvalarleyfa sem ekki fylgir réttur til fjölskyldusameiningar.

  • Dvalarleyfi fyrir börn er nú heimilt að veita börnum sem eru orðin 18 ára svo lengi sem þau voru ekki orðin 18 ára þegar umsókn var lögð fram.

  • Dvalarleyfi fyrir maka og börn erlendra ríkisborgara, sem eru með dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, fylgir nú réttur til að vinna án atvinnuleyfis á Íslandi.