Fara beint í efnið

Árétting vegna dóma Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember

15. desember 2022

Ekki fjallað um lögmæti ákvörðunar stjórnvalda um endursendingu til Grikklands

Fundarhamar

Með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur þann 12. desember síðastliðinn voru felldir úr gildi úrskurðir kærunefndar útlendingamála um synjun á beiðnum um endurupptöku. Málið varðaði ríkisborgara Írak með dvalarleyfi á Grikklandi á grundvelli alþjóðlegrar verndar, sem höfðu sótt um vernd hér á landi en verið synjað um efnislega meðferð.

Endurupptökubeiðnirnar voru lagðar fram á grundvelli þess að 12 mánaða frestur stjórnvalda til að ljúka málum þeirra með endursendingu væri liðinn. Kærunefndin hafnaði beiðnunum með vísan til þess að tafir á málunum hefðu verið á ábyrgð umsækjendanna sjálfra. Að mati dómsins var hins vegar óljóst hvort stefnendur hefðu reynt að villa um fyrir yfirvöldum til að  tefja fyrir brottflutningi sínum þótt það hafi ekki verið útilokað. Því var ekki fallist á að kærunefnd útlendingamála hafi verið rétt að synja endurupptökubeiðnum stefnenda á þeim grundvelli sem hún gerði.

Dómarnir fjalla ekki um aðalkröfu stefnenda, það er hvort ákvarðanir Útlendingastofnunar um að taka umsóknir þeirra ekki til efnismeðferðar og vísa þeim til baka til Grikklands hefðu verið ólögmætar. Ákvörðun um áfrýjun dómsins er ekki á forræði Útlendingastofnunar, heldur ríkislögmanns og þeirra stjórnvalda sem niðurstaðan varðar.

Dómarnir hafa verið birtir á vef héraðsdómstólanna: E-1544/2022 og E-1545/2022.