Útgáfa á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi 1563–1800. Rannsóknadagur Þjóðskjalasafns og útgáfuhóf 9. október 2025
30. september 2025
Út er komið fimmta bindi Yfirréttarins á Íslandi. Áætlað er að bindin verði alls tíu og er útgáfan því hálfnuð. Af því tilefni verður Rannsóknadagur Þjóðskjalasafns Íslands 2025 helgaður útgáfunni á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi með dagskrá og útgáfuhófi í Þjóðskjalasafni fimmtudaginn 9. október kl. 13:00-16:30.

Yfirrétturinn á Íslandi starfaði á árunum 1563–1800 og var æðsta dómstig innanlands. Málin sem komu fyrir Yfirréttinn voru margvísleg: morð, dulsmál, sifjaspell, þjófnaðir, meiðyrði, landaþrætur, ásakanir um falsanir, réttarneitanir sýslumanna og margt fleira.
Á ráðstefnunni munu fyrirlesarar fjalla um Yfirréttinn, dómsmál sem fyrir hann komu og réttarfar á 18. öld frá ýmsum hliðum auk þess sem forseti Hæstaréttar og fulltrúi Alþingis munu flytja ávörp.
Áætlað er að útgáfu Yfirréttarins ljúki árið 2030 og verða bindin alls tíu talsins með öllum varðveittum dómum og skjölum Yfirréttarins auk þess sem ritröðin mun innihalda varðveitt skjöl aukalögþinga. Útgáfan er styrkt af Alþingi og unnin í samstarfi við Sögufélag. Ritstjórar eru Gísli Baldur Róbertsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir.
Hægt verður að kaupa fimmta bindið ásamt fyrri bindum Yfirréttarins á staðnum á sérstöku tilboðsverði en einnig er hægt að nálgast eintak í vefverslun Sögufélags og helstu bókaverslunum.
Hér má lesa nánar um Yfirréttinn á Íslandi.
