Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Upplýsingaöryggi rætt á fjölsóttri vorráðstefnu Þjóðskjalasafns Íslands

15. maí 2024

Vorráðstefna Þjóðskjalasafns Íslands fór fram í Reykjavík í gær í sjötta sinn. Ráðstefnan er helguð viðfangsefnum í skjalavörslu og skjalastjórn hins opinbera og var yfirskrift hennar að þessu sinni „Upplýsingaöryggi í skjalavörslu og skjalastjórn – er eitthvað að varast?“ Líkt og fyrri ár var ráðstefnan mjög vel sótt en alls tóku 162 þátt.

Vorráðstefna Þjóðminjasafns Íslands 2024

Flutt voru fjögur erindi um vernd skjala og gagnasafna, hvað beri að varast og hverju að gæta að í upplýsingaöryggi. Að erindum loknum sáttu frummælendur í pallborði og spunnust líflegar umræður um viðfangsefnið.

Erindi fluttu Theodór R. Gíslason frá Syndis og Defend Iceland, Þórður Sveinsson hjá Persónuvernd, Árni Jóhannsson hjá Þjóðskjalasafni Íslands og Bjarki Sigurvarðsson frá netöryggissveitinni CERT-IS. Sjá nánari upplýsingar um frummælendur, heiti erinda og dagskrá hér.

Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður ávarpaði einnig ráðstefnuna og sagði frá stafrænni vegferð Þjóðskjalasafns á síðustu árum, sem hefur miðað að því að tryggja vörslu og aðgengi rafrænna gagna með sem bestum og skilvirkustum hætti. Ný stefna var sett 2022 sem tekur mið af þessum áherslum.

„Stafræn umbreyting hefur það að markmiði að tryggja varðveislu og aðgengi að rafrænum gögnum stjórnsýslunnar og skjölum er varða sögu samfélagsins, sem og að bjóða notendum stafræna þjónustu. Innleiðing á nýju skjalaskrárkerfi fyrir Þjóðskjalasafn er hluti af þessari vinnu og er stefnt að því að það verði komið í fulla notkun nú um áramótin.

Ráðstefnan var tekin upp og verður birt á vef safnsins síðar.