Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Tveggja áratuga þjóðlendurannsóknum lokið

8. janúar 2026

Frá árinu 2004 hefur Þjóðskjalasafn unnið að kerfisbundinni gagnaöflun um jarðir og landsvæði en hún hefur verið framkvæmd samhliða málsmeðferð óbyggðanefndar og í samstarfi við nefndina um þjóðlendumál. Svæði 12, eyjar og sker, var síðasta svæðið á borði nefndarinnar en gagnaöflun um það lauk um miðjan desember síðastliðinn. Þar með er lokið þessu rúmlega tveggja áratugaverkefni innan Þjóðskjalasafns.

Samtals hafa 33 einstaklingar starfað við verkefnið innan Þjóðskjalasafns frá árinu 2004. Starfsfólk safnsins hefur í gegnum tíðina unnið að gerð stafréttra uppskrifta á landamerkjabréfum, leit og greiningu á jarðalýsingum og efnisskráningu dóma- og þingbóka sýslumanna í þar til gerðan gagnagrunn.

Afraksturinn er ekki síst gríðarlegt magn jarðaupplýsinga. Um er að ræða þúsundir stafréttra uppskrifta, yfirlit enn fleiri frumgagna og sögulegar greinargerðir um jarðir og tiltekin landsvæði. Hluti þessara upplýsinga er þegar aðgengilegur á jarðavef Þjóðskjalasafns með stafréttum uppskriftum landamerkjabóka og stafrænni endurgerð þeirra sem og annarra heimilda.

Verkefnið og hin stjórnsýslulega meðferð þjóðlendumála undirstrikar mikilvægi frumskjala sem grundvöll rannsókna af þessu tagi og enn fremur hve bætt aðgengi að þeim er brýnt fyrir almenning og stjórnsýslu. Við gangaöflunina hafa komið upp mörg áhugaverð skjöl líkt og uppdráttur Benónís Guðlaugssonar af landi Hvalvíkur á Austfjörðum.

Eins og áður segir var síðasta svæðið til umfjöllunar í þjóðlendurannsóknum svæði 12, eyjar og sker. Á því svæði náði gagnaöflunin til 612 jarða og landsvæða. Af hálfu Þjóðskjalasafns voru tekin saman 2.065 skjöl, gerð grein fyrir öðrum 2.733 skjölum og loks skrifaðar átta sögulegar greinargerðir um fyrr taldar jarðir og landsvæði. Meðal frumskjala sem tekin voru saman var dómur sýslumanns Skagafjarðarsýslu frá 20. september 1869 um tolla fyrir fuglaveiði í Drangey, bréf hreppsnefndar Hafnahrepps frá 16. október 1895 um fuglaveiði og eggjatöku í Eldey, sem sést hér á myndinni að ofan, og undirritað afsal frá 23. ágúst 1960 fyrir landi ríkisins í Vestmannaeyjum. Hjá óbyggðanefnd var málsmeðferð um þjóðlendukröfur ríkisins og gagnkröfur landeigenda skipt í tvö mál en nefndin kvað upp úrskurð sinn í þeim þann 22. desember síðasliðinn. Úrskurðir óbyggðanefndar eru aðgengilegir á vef nefndarinnar.

Sérfræðingar í Þjóðskjalasafni vinna nú að því að gera afurðir verkefnisins aðgengilegar á heimildavef safnsins. Þar verða meðal annars birtar sögulegar greinargerðir Þjóðskjalasafns vegna 64 mála sem voru til umfjöllunar hjá óbyggðanefnd.