Þjóðskjalavörður heimsækir Héraðsskjalasafn Austfirðinga
10. júní 2024
Stefán Bogi Sveinsson og samstarfsfólk hans á Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum tók á móti Hrefnu Róbertsdóttur þjóðskjalaverði á Egilsstöðum fimmtudaginn 6. júní síðastliðinn.
Héraðsskjalasöfn á Íslandi eru sjálfstæð opinber skjalasöfn sem lúta faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns. Söfnin eru 20 talsins og staðsett víða um land og þjóðskjalavörður heimsækir þau reglulega til þess að styrkja og viðhalda góðum tengslum Þjóðskjalasafns við héraðsskjalasöfnin.
Í nýlegri heimsókn Hrefnu Róbertsdóttur til Héraðsskjalasafns Austfirðinga var safnið skoðað og málefni skjalasafna í samtímanum rædd. Héraðsskjalasafn Austfirðinga sinnir mikilvægu hlutverki í héraði og meðal annars var tvíþætt hlutverk skjalasafna rætt – stjórnsýsluhlutverkið og menningarhlutverkið – og hvernig þau bæði skarast og styrkja hvert annað. Stjórnsýsluhlutverkið er minna sýnilegt út á við, en það er engu að síður mjög mikilvægt, rafræn langtímavarsla skjala og eftirlit með því að rétt sé á málum haldið hjá þeim aðilum sem afhendingarskyldir eru til safnanna.
Á myndinni hér að ofan eru Ingibjörg Sveinsdóttir Kröyer safnvörður, Eysteinn Ari Bragason skjalavörður, Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og Stefán Bogi Sveinsson héraðsskjalavörður.
Þá var skoðuð ný sýning Héraðsskjalasafnsins um Margréti Sigfúsdóttur, 20. aldar verkakonu, kennara og skáld í Fljótsdal, sem sett var upp í tengslum við ráðstefnu um kvenna- og kynjasögu á Seyðisfirði og Egilsstöðum dagana 8. og 9. júní 2024.