Þjóðskjalasafn Íslands í Samfélaginu
29. nóvember 2023
Þáttastjórnendur Samfélagsins á Rás 1 hafa heimsótt Þjóðskjalasafn reglulega frá því í febrúar á þessu ári til þess að kynnast starfsemi þess og safnkosti.
Þáttastjórnendur Samfélagsins á Rás 1 hafa heimsótt Þjóðskjalasafn reglulega frá því í febrúar á þessu ári til þess að kynnast starfsemi þess og safnkosti. Það sem af er ári hafa þau Guðmundur Pálsson og Arnhildur Hálfdánardóttir komið 16 sinnum á safnið og rætt við starfsfólk um ólíkustu málefni. Viðtölin eru aðgengileg á vefsíðu RÚV og gefa skemmtilega innsýn í störf og verkefni á safninu.
Nýlega var til dæmis Hagsögusafnið sem varðveitt er á Þjóðskjalasafni til umræðu í Samfélaginu. Hagsögusafnið er samansafn verslunarskjala frá meira en 300 ólíkum verslunum og félögum af öllu landinu frá lokum 19. aldar og fram yfir miðja 20. öld.
Fyrir nokkrum árum var unnið að frágangi á þessum gögnum innan Þjóðskjalasafns en í ljós komu um 1.000 bækur af óljósum uppruna sem reynt var að rekja til réttra verslana og félaga. Skjalaverðir safnsins lögðu í mikla rannsóknarvinnu við að finna uppruna þessara bóka og eina af þeim tókst að rekja til veitingahúss Nikulásar Jafetssonar frá árunum 1876-1880. Bókin hefur að geyma barreikninga bæjarbúa og veitir skemmtilega innsýn í bæjarlífið í Reykjavík. Veitingahús þetta var staðsett við Læknisgötu í Reykjavík, þar sem nú mun heita Vesturgata 17, og fékk síðar nafnið Hótel Reykjavík.
Á meðfylgjandi myndum má sjá bókina sjálfa, auk korts Benedikts Gröndal af Reykjavík frá þessum tíma. Önnur gömlu ljósmyndanna er af Nikulási Jafetssyni sjálfum, tekin af Sigfúsi Eymundssyni, og líklega lagði Sigfús þessa sömu mynd inn í barreikning sinn hjá Nikulási. Hin myndin er af veitingahúsi Nikulásar, en tekin þó nokkrum árum eftir að hann lést og hafði húsið þá tekið nokkrum breytingum.
Hér má hlusta á alla þættina sem þegar hafa verið birtir á árinu:
Þjóðskjalasafn heimsótt. Rætt við Hrefnu Róbertsdóttur, þjóðskjalavörð.
Stafrænt Þjóðskjalasafn. Rætt við Unnar Ingvarsson, fagstjóra stafrænnar endurgerðar.
Þjóðskjalasafnsgeymsla heimsótt. Rætt við Gunnar Örn Hannesson, fagstjóra skráninga.
Einkaskjöl í Þjóðskjalasafni. Rætt við Njörð Sigurðsson, aðstoðarþjóðskjalavörð.
Lénsreikningar. Rætt við Kristjönu Kristinsdóttur, skjalavörð. Viðtalið hefst á 36. mínútu.
Hundrað ára gömul gerðarbók. Rætt við Árna Jóhannsson, skjalavörð.
Merkileg skjöl frá upphafi átjándu aldar. Rætt við Ragnhildi Önnu Kjartansdóttur skjalavörð.
Rýnt í dómabækur. Rætt við Ólaf Valdimar Ómarsson skjalavörð.
Uppdráttur Benónís Guðlaugssonar. Rætt við Kjartan Richter, skjalavörð.
Styttan af Leifi Eiríkssyni. Rætt við Indriða Svavar Sigurðsson, skjalavörð.
Hagsögusafn Þjóðskjalasafns. Rætt við Jón Torfa Arason, skjalavörð.