Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Þjóðskjalasafn fær styrk fyrir kostnaði vegna starfs á landsbyggðinni

4. desember 2024

Byggðastofnun veitir styrki vegna óstaðbundinna starfa á landsbyggðinni og nýlega hlaut Þjóðskjalasafn styrk fyrir kostnaði vegna aðstöðu skjalavarðar á Neskaupstað.

Mulinn-samvinnuhus

Á vef Byggðastofnunar segir: „Samningarnir eru gerðir á grundvelli aðgerðar B.7. um óstaðbundin störf í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036. Markmið verkefnisins er að leitast við að efla búsetufrelsi með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa í landsbyggðunum. Aðgerðinni er sömuleiðis ætlað að hækka hlutfall stöðugilda á vegum ríkisins í landsbyggðunum og styrkja þannig búsetu í byggðum landsins.“

Starfið sem um ræðir er að hluta til við upplýsingaþjónustu safnsins og að hluta við öflun gagna fyrir Óbyggðanefnd vegna þjóðlendumála. Starfið er unnið í skrifstofuklasanum Múlanum samvinnuhúsi á Neskaupstað. Múlinn er rekinn af Samvinnufélagi Útgerðarmanna Neskaupstað (SÚN) og hýsir mörg fyrirtæki.

Sum af verkefnum Þjóðskjalasafns eru þess eðlis að þau geta verið óstaðbundin og vilji er til þess hjá safninu að skilgreina auglýst störf á þann hátt þegar það á við.

Mynd fengin af vef Múlans.