Þing Alþjóða skjalaráðsins 2023
23. október 2023
Dagana 9.-13. október síðastliðinn fór fram þing Alþjóða skjalaráðsins (ICA) í Abu Dhabi. Þingin, sem haldin eru á fjögurra ára fresti, sækja skjalaverðir, skjalastjórar og háskólafólk alls staðar að úr heiminum til að ræða sameiginlegar áskoranir og verkefni.
Dagana 9.-13. október síðastliðinn fór fram þing Alþjóða skjalaráðsins (ICA) í Abu Dhabi. Þingin, sem haldin eru á fjögurra ára fresti, sækja skjalaverðir, skjalastjórar og háskólafólk alls staðar að úr heiminum til að ræða sameiginlegar áskoranir og verkefni. Að þessu sinni var þema þingsins „Enriching Knowledge Societies“ og var fjöldi málstofa og námskeiða er tengdust þemanu, en um 1.300 þátttakendur sóttu þingið.
Á alþjóðavettvangi er lögð mikil áhersla á bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga, í tengslum við langtímavarðveislu skjala, auk þess sem áhrif gervigreindar á starfsemi safna og sameiginlegur skjalaarfur milli landa var mikið ræddur. Á þinginu gafst einnig tækifæri fyrir sérfræðihópa sem starfa á vegum Alþjóða skjalaráðsins til að funda um sín verkefni og markmið. Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður og Njörður Sigurðsson, aðstoðarþjóðskjalavörður, sóttu þingið fyrir hönd Þjóðskjalasafns Íslands en auk þess að taka þátt í málstofum þingsins sóttu þau ýmsa fundi sem tengjast þeirra verkefnum, s.s. aðalfund Alþjóða skjalaráðsins og fundi þjóðskjalavarða heimsins (Forum of National Archivists).