Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Starfsfólk hjólaði 1.852 kílómetra

4. júní 2024

Lið Þjóðskjalasafns Íslands hafnaði í 2. sæti í sínum flokki af 69 fyrirtækjum og stofnunum sem tóku þátt í átakinu „Hjólað í vinnuna“, sem fór fram dagana 8.-28. maí 2024.

Hjólað í vinnuna - 2. sæti 2024

„Hjólað í vinnuna“ er skemmtilegt lýðheilsuverkefni sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur staðið fyrir frá árinu 2003. Með því er starfsfólk hvatt til að nota heilsusamlega og umhverfisvæna samgöngumáta til og frá vinnu. Verkefnið stendur yfir í þrjár vikur í maí og tók starfsfólk Þjóðskjalasafns þátt með liðinu Skjalaverðir.

Mikil stemmning og gleði myndaðist hjá starfsfólki og þegar upp var staðið höfðu þátttakendur ferðast 1.852 km af eigin rammleik. Liðsmenn voru 24 sem er meira en helmingur alls starfsfólks og því hjóluðu og gengu liðsmenn hver um sig að meðaltali níu daga á tímabilinu. Innan veggja skjalasafna er að öllu jöfnu rætt um hillukílómetra en undanfarnar vikur hafa hjólakílómetrar verið ofar í huga starfsfólks!

Það má með sanni segja að átakið hafi kveikt í mörgum að draga fram hjólin sín og stíga á fákana enda er útihreyfing ljúf byrjun á deginum.