Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Skipsskaðar á Safnanótt í Þjóðskjalasafni Íslands 6. febrúar 2026

29. janúar 2026

Skipsskaðar við Ísland er þema safnanætur í Þjóðskjalsafni Íslands í ár. Fjallað verður um skipbrot Pourquoi – Pas?, Jamestown og spítalaskipsins Sankti Páls í fyrirlestrum og munir og skjöl sem tengjast efni þeirra verða til sýnis.

Helgi Biering, þjóðfræðingur og skjalavörður, Illugi Jökulsson blaðamaður, útvarpsmaður og rithöfundur og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir sagnfræðingur og verkefnastjóri heimildaútgáfu á Þjóðskjalasafni Íslands flytja áhugaverð erindi og ræða við gesti. Jafnframt verða til sýnis skjöl og munir sem tengjast fyrirlestrum kvöldsins.

17:30 Húsið opnar

18:00 Helgi Biering, Jamestown – strandið og góssið

Þann 26. júní árið 1881 strandaði seglskipið Jamestown við Hvalsnes á Reykjanesi. Skipið var gríðarstórt, líklega með allra stærstu skipum sem komið höfðu til landsins, og var hlaðið timbri af mismunandi tegundum, þar á meðal harðviði. En hvaða áhrif hafði strandið á Suðurnesin? Hvað varð um farminn og skipið? Eru einhverjar minjar um þetta strand að finna í dag? Í fyrirlestrinum fer Helgi Biering yfir sögu skipsins, aðdraganda strandsins og eftirmála.

18:30 Illugi Jökulsson, Strand Pourquoi – Pas? árið 1936

Eitt frægasta sjóslys sem orðið hefur við Íslandsstrendur átti sér stað í september 1936 þegar franska seglskipið Pourquoi-Pas rak upp í fjöru á Mýrunum eina óveðursnótt. Þetta var rannsóknaskip sem hafði farið marga leiðangra um norðurslóðir undir stjórn hins fræga og dáða franska vísindamanns Jean-Baptiste Charcot. Í slysinu fórust 40 manns úr áhöfninni, þar á meðal Charcot, aðeins einn maður komst af. Frakkar kunnu vel að meta allar tilraunir sem Íslendingar gerðu til að bjarga áhöfn skipsins og eftir á sendu þeir hingað orður og viðurkenningar af ýmsu tagi. Um strand Pourquoi-Pas sköpuðust óteljandi sögur, enda margt dramatískt um málið að segja, en í erindi Illuga Jökulssonar verður athyglinni sérstaklega beint að björgunaraðgerðunum og samskiptum Frakka og Íslendinga vegna málsins.

19:00 Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, Strand spítalaskipsins Sankti Páls á Meðallandsfjörum árið 1899

Franska spítalaskipið Sankti Páll var með glæsilegri skipum sem komu á Íslandsmið fyrir aldamótin 1900. Það var þrímastra seglskip sem strandaði í sinni þriðju ferð til Íslands 1899. Hið fagra skip vakti eðlilega mikla athygli þar sem það lá í fjörunni í Meðallandi sem kölluð hefur verið skipakirkjugarður Íslands. Í erindinu segir Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir sagnfræðingur og verkefnastjóri heimildaútgáfu á Þjóðskjalasafni Íslands frá strandinu, björgun áhafnar og verðmæta, og uppboði strandgóssins sem var óvenju mikið að þessu sinni. Jafnframt því gerir hún grein fyrir margs konar skjölum, bréfum og reikningum sem urðu til í tengslum við strandið og varðveitt eru á Þjóðskjalasafni.

19:30 – 21:00 Kynning á Þjóðskjalsafni og sýning á skjölum og munum tengdum fyrirlestrum kvöldsins

Gestum er bent á að aðkoma að safninu er inni í portinu við Laugaveg 162, þar sem bílastæði gesta og starfsfólks eru. Inngangur er á hægri hönd.

Frítt inn og öll velkomin.