Skáksambandið afhendir Þjóðskjalasafni gögn sín til varðveislu
10. júní 2025
Í tilefni af 100 ára afmæli Skáksambands Íslands hefur verið ákveðið að afhenda Þjóðskjalasafni Íslands eldri gögn Skáksambandsins til varðveislu.
Þar má nefna fundargerðarbækur, ársskýrslur, frumrit af afritum skákskriftarblaða einvígis aldarinnar frá 1972 auk annarra gagna. Eftir að gögnin hafa verið skráð verða þau aðgengileg á safninu fyrir þá sem vilja skoða þau en einnig verður hluti gagnanna skannaður og gerður aðgengilegur á netinu.
Gunnar Björnsson, forseti SÍ, sagði af þessu tilefni: „Við erum gríðarlega ánægð með að koma þessum gögnum í öruggar hendur Þjóðskjalasafnsins. Með því tryggjum við öryggi gagnanna og aðgengi að þeim verður mun betra en verið hefur.” Njörður Sigurðsson aðstoðarþjóðskjalavörður fagnaði afhendingunni og sagði að safnið tæki með ánægju að sér það verkefni að varðveita þessi mikilvægu gögn og gera aðgengileg fyrir notendur.
Á myndinni afhendir Gunnar Björnsson Nirði Sigurðssyni aðstoðarþjóðskjalaverði fyrstu fundargerðarbók sambandsins, sem hefst árið 1925 og líkur 1947.