Sérfræðingar Þjóðskjalasafns á ferðinni á Austurlandi
3. september 2024
Sérfræðingar Þjóðskjalasafns Íslands í skjalavörslu og skjalastjórn verða á ferðinni á Austurlandi dagana 23. – 25. september næstkomandi.
Tilgangur ferðarinnar er að heimsækja aðila á svæðinu sem eru afhendingarskyldir til Þjóðskjalasafns Íslands og veita ráðgjöf um atriði sem lúta að skjalavörslu og skjalastjórn, svo sem frágang og afhendingu pappírsskjala til Þjóðskjalasafns, rafræna skjalavörslu, skráningu mála og málsgagna auk varðveislu og grisjun skjala.
Viðvera séfræðinga safnsins á Austurlandi í september er liður í að auka þjónustu við afhendingarskylda aðila Þjóðskjalasafns á landsbyggðinni. Þjóðskjalasafn hefur í gegnum árin veitt ráðgjöf um skjalavörslu og skjalastjórn til þessara aðila ásamt því að skipuleggja heimsóknir og námskeið. Í júní síðastliðnum voru afhendingarskyldir aðilar á Snæfellsnesi sóttir heim, meðal annars stofnanir og sveitarfélög sem eru afhendingarskyld til Þjóðskjalasafns.
Hægt er að bæta við fleiri ráðgjafaheimsóknum í dagskrá ferðarinnar á Austurland. Beiðni um heimsókn skal send í tölvupósti á netfangið skjalavarsla@skjalasafn.is.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Heiðar Lind Hansson fagstjóra gagnaskila og eftirlits og Ólaf Valdimar Ómarsson skjalavörð ásamt Björgu Ágústsdóttur bæjarstjóra á Grundarfirði í ráðgjafaheimsókn sérfræðinga safnsins á Snæfellsnes í júní síðastliðnum.