Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Sendinefnd frá kínverska kommúnistaflokknum í heimsókn

15. desember 2023

Þann 13. nóvember síðastliðinn tóku Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og starfsfólk Þjóðskjalasafns Íslands á móti sjö manna sendinefnd frá The Institute of Party History and Literature (IPHL) í Peking.

sendinefnd fra kinverska kommunistaflokknum i heimsokn 13.11.23-1

Þann 13. nóvember síðastliðinn tóku Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og starfsfólk Þjóðskjalasafns Íslands á móti sjö manna sendinefnd frá The Institute of Party History and Literature (IPHL) í Peking. Stofnunin hafði óskað eftir að fá kynningu á skjalastjórn, rafrænni skjalavörslu og meðferð og notkun skjala hjá Þjóðskjalasafni Íslands.

Dagskrá hófst með kynningu þjóðskjalavarðar á safninu og starfsemi þess. Að því loknu voru þrjár fageiningar í starfseminni kynntar sérstaklega. Heiðar Lind Hansson, fagstjóri gagnaskila og eftirlits, Unnar Ingvarsson, fagstjóri stafrænnar endurgerðar og Ólafur Arnar Sveinsson, fagstjóri fræðslu og rannsókna, fluttu allir erindi, auk þess sem sett hafði verið saman sýning á skjölum tengdum Kína sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni.

Þar mátti sjá afrit af skjali varðandi samning milli Danmerkur og Kína frá 13. júlí 1863 um siglingar og verslun, varðveitt í skjalasafni utanríkisráðuneytisins og skjöl úr sendiráði Íslands í London um „Tribute to China“, tónleika sem haldnir voru í The Royal Albert Hall árið 1943 til styrktar kínverskum börnum.

Einnig voru til sýnis skjöl úr utanríkisráðuneytinu, meðal annars skýrsla sendiherra Íslands í Kína um stöðu mála þar og bréf frá kínverska sendiráðinu í Reykjavík. Að lokum voru skjöl úr menntamálaráðuneytinu, bréf og sýningarskrá, um kínverska myndlistarsýningu sem haldin var á Kjarvalsstöðum í febrúar 1986.

Wang Quanchun, varaforseti IPHL, flutti tölu eftir kynningar Þjóðskjalasafns og færði þjóðskjalaverði gjafir. Í lok heimsóknar var gengið um geymslur og starfsaðstaða Þjóðskjalasafns skoðuð.