Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Sáttanefndabækur í veflægan gagnagrunn hjá Þjóðskjalasafni Íslands

25. júní 2024

Laugardaginn 29. júní klukkan 14-17 býður Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra til opnunarhófs gagnagrunns sáttanefndabóka og málþings um störf sáttanefnda á Íslandi í húsakynnum rannsóknasetursins á Einbúastíg 2 á Skagaströnd.

Fyrsta síðan úr elstu sáttabókinni. Sáttanefnd Haga- og Brjánslækjarsókna (1797–1883)

Í Þjóðskjalasafni Íslands og öðrum opinberum skjalasöfnum eru varðveittar svonefndar sáttabækur. Þær innihalda gögn sáttanefnda, sem stofnaðar voru víða í Danaveldi í lok 18. aldar og ætlað var að koma á sáttum milli deiluaðila áður en kæmi til málaferla fyrri rétti. Gögnin spanna tímabilið frá stofnun fyrstu nefnda árið 1797 og fram til 1936.

Gagnagrunnur sáttanefndabóka er fimm ára rannsóknarverkefni á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra sem unnið hefur verið í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga með það að markmiði að auka aðgengi að þessum lítt rannsökuðu heimildum með opnun veflægs gagnagrunns.

Grunnurinn verður aðgengilegur öllum á miðlunarvef Þjóðskjalasafns Íslands, heimildir.is, og verður opnaður með formlegum hætti við þetta tilefni. Einnig verða haldin áhugaverð erindi um sögu og störf sáttanefnda á Íslandi á 19. og 20. öld.

Dagskrá málþings:

  • 14:00-14:10 Vilhelm Vilhelmsson forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra býður gesti velkomna

  • 14:10-14:20 Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður flytur ávarp

  • 14:20-14:30 Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands flytur ávarp

  • 14:30-14:50 Vilhelm Vilhelmsson, „Sáttanefndir og störf þeirra á Íslandi, 1798-1936“

  • 15:00-15:30 Kaffihlé

  • 15:30-15:50 Harpa Rún Ásmundsdóttir verkefnastjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, „Af missáttum mönnum. Einstaklingar sem komu ítrekað fyrir sáttanefndir.“

  • 15:50-16:10 Ása Ester Sigurðardóttir, sérfræðingur við Rannsóknasetur Haskóla Íslands á Norðurlandi vestra, „Íslands heilladísir gráta blóðugum tárum: Kistubrot í Elliðaánum“

  • 16:10-16:30 Stefanía Halldórsdóttir, formaður Sáttar – félags um sáttamiðlun, og Vilborg Bergman, varaformaður Sáttar, „Sáttamiðlun á 21. öld“

  • 16:30-17:00 Umræður