Ráðherra heimsækir Þjóðskjalasafn Íslands
2. maí 2025
Logi Einarsson, ráðherra menningar-, nýsköpunar- og háskólamála, heimsótti Þjóðskjalasafn Íslands á dögunum og kynnti sér starfsemi safnsins. Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður, Njörður Sigurðsson aðstoðarþjóðskjalavörður og Þuríður Árnadóttir sviðsstjóri tóku á móti honum.

Rætt var um málefni sem eru efst á baugi í málefnum skjalasafna um þessar mundir. Þar ber hæst þær umbreytingar sem ríkið í heild er að fara í samhliða stafrænni þróun, langtímavarsla skjala og öryggismál.
Þjóðskjalasafn gegnir lykilhlutverki í þeim breytingum og tekur við þeim stjórnsýslulegu gögnum sem til verða og veitir ráðgjöf um frágang og fyrirkomulag. Rætt var um húsnæðisgreiningu sem Framkvæmdasýsla ríkisins vinnur að fyrir safnið þar sem verið er að meta framtíðarfyrirkomulag húsnæðismála og langtímavörslu Þjóðskjalasafns.
Að lokum voru valin skjöl skoðuð úr safnkostinum, en alls eru um 50 hillukílómetrar gagna í vörslu safnsins.
