Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Öryggi skjalasafna á óvissutímum – Norrænir skjaladagar

29. september 2025

Norrænir skjaladagar fóru fram í Osló í Noregi dagana 16.-17. september síðastliðinn. Stór hópur starfsfólks frá Þjóðskjalasafni Íslands, héraðsskjalasöfnum og frá opinberum stofnunum og sveitarfélögum á Íslandi sótti ráðstefnuna sem var sú fjölmennasta sem haldin hefur verið á þessum vettvangi á Norðurlöndunum.

Norrænir skjaladagar eru einn helsti samstarfsvettvangur norrænna skjalasafna og þjóðskjalasafna á Norðurlöndum en ráðstefnan hefur verið haldin að jafnaði á þriggja ára fresti frá árinu 1935. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni var Hlutverk skjalasafna í samfélaginu og skiptist dagskráin í þrjú meginþemu: Hagnýtar tækninýjungar, Öryggi skjalasafna á óvissutímum og Möguleikar skjalasafna. Þá var sú nýbreytni að ráðstefnan fór í fyrsta skipti fram á ensku.

Athygli vakti hve áberandi umræðan var um mikilvægi og stöðu skjalasafna í samtímanum. Lykilfyrirlesarar voru meðal annars ríkisskjalavörður Úkraínu Anatolii Khromov, sem lýsti því hvernig tókst að koma 98% af safnkosti skjalasafnsins undan eyðileggingu rússneska hersins. Aðalritari norsku Helsinkinefndarinnar Berit Lindeman sýndi með áþreifanlegum hætti hvernig skjalasöfn leika lykilhlutverk í saksóknum stríðsglæpa og Guðni Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Íslands fjallaði í erindi sínu um mikilvægi skjalasafna fyrir fræðimenn. Áskoranir og tækifæri gervigreindar hjá skjalasöfnum voru einnig í brennidepli með lykilfyrirlestrum meðal annars frá Anders Søgaard prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn, Jonas Engestøl Wettre frá Norska tækniráðinu og fleiri.

Fjöldi málstofa og erinda var á ráðstefnunni og tók starfsfólk Þjóðskjalasafns virkan þátt með því að flytja fimm erindi á vegum safnsins og stýra tveimur málstofum. Erindi Þjóðskjalasafns fjölluðu meðal annars um áhrif þroskastiga skjalavörslu og skjalastjórnar á skjalahald og neyðarviðbragð, stafræna vegferð Þjóðskjalasafns, viðbrögð og undirbúning vegna náttúruhamfara, rafræna skjalavörslu og vefmiðlun á safnkosti á landfræðilegan hátt.

Nordiske arkivdager. Unnar Ingvarsson
Vinnustofa um stefnumótun. Norrænir skjaladagar