Óbyggðanefnd úrskurðar um síðustu svæðin á meginlandi Íslands
7. nóvember 2024
Uppkvaðning úrskurða í málum á Austfjörðum (svæði 11) fór fram 5. nóvember og hefur óbyggðanefnd þá lokið umfjöllun um sextán af sautján svæðum sem landinu var skipt í og málsmeðferð á meginlandinu er lokið. Síðasta svæðið sem fjallað er um eru eyjar og sker umhverfis landið og stendur sú vinna nú yfir.
Allt frá því óbyggðanefnd tók til starfa árið 1998 hefur nefndin í ríkum mæli notið liðsinnis sérfræðinga Þjóðskjalasafns Íslands við öflun heimilda vegna ágreiningsmála sem nefndin hefur haft til meðferðar. Sú gagnaöflun er afar mikilvægur liður í því að málin séu rannsökuð til hlítar áður en úrskurðir um eignarhald eru kveðnir upp. Þjóðskjalasafn aflar heimilda og gagna um eignar- og afnotaréttindi, sem og landamerki, á þeim landsvæðum sem til meðferðar eru hjá óbyggðanefnd og skrifar sögulegar greinargerðir um þau gögn sem koma í leitirnar.
Vegna svæðis 11, Austfjarða könnuðu sérfræðingar Þjóðskjalasafns gögn fyrir 193 jarðir og svæði. Alls voru 2.117 skjöl mynduð og þeirra getið í sögulegri greinargerð Þjóðskjalasafns. Flest þeirra skjala voru skrifuð upp stafrétt. Þá var greint frá tæplega 3.000 skjölum sem upp komu við gagnaöflunina. Skjölin eru af ýmsum toga, til dæmis landamerkjalýsingar, vitnisburðir, kort og dómaframkvæmdir.
Af meginlandinu teljast 36,6% landsins til þjóðlendna en 63,4% eru eignarlönd. Heildarfjöldi skjala sem lögð hafa verið fram og rannsökuð við meðferð óbyggðanefndar á svæðum 1–11 er 36.607, að meðtöldum framlögðum hliðsjónargögnum.
Afrakstur rannsókna á Þjóðskjalasafni fyrir óbyggðanefnd er jafnan gerður aðgengilegur almenningi og verkefnið hefur leitt af sér afurðir á borð við svokallaðan dómabókagrunn sem inniheldur tugþúsundir færslna um dómsmál frá sautjándu öld og fram á þá tuttugustu.
Óbyggðanefnd var sett á stofn með lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, sem tóku gildi 1. júlí 1998.
Á meðfylgjandi mynd má sjá uppdrátt frá bóndanum Benóní Guðlaugssyni á Glettingsnesi sem átti í langvinnum deilum við nágranna sinn Skúla Björnsson á Brúnavík um jörðina Hvalvík og hlunnindi hennar. Benóní teiknaði upp jörð sína og landamerki með nákvæmum skýringum en gögn hans eru varðveitt í Þjóðskjalasafni.
Kjartan Richter skjalavörður á Þjóðskjalasafni sagði frá rannsókn sinni á þessum gögnum í Samfélaginu á Rás 1.