Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Nýr veflægur gagnagrunnur sáttanefndabóka hefur verið opnaður

19. júlí 2024

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra efndi nýverið til fróðlegs málþings um störf sáttanefnda á Íslandi á árunum 1797-1936 í tilefni opnunar gagnagrunns sáttanefndabóka á vef Þjóðskjalasafns Íslands.

Samstarfsaðilar Skagaströnd 29. júní 2024 Sólborg Una Pálsdóttir, Vilhelm Vilhelmsson, Hrefna Róbertsdóttir

Síðastliðin fimm ár hefur verið unnið að verkefni um skráningu, skönnun og birtingu á efni sáttanefndabóka frá árunum 1797-1936 frá öllu landinu. Verkefnið var unnið í samstarfi Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, Þjóðskjalasafns og Héraðsskjalasafns Skagfirðinga undir forystu Vilhelms Vilhelmssonar forstöðumanns Rannsóknasetursins. Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar samstarfsaðila, Sólborg Una Pálsdóttir héraðsskjalavörður, Vilhelm Vilhelmsson forstöðumaður Rannsóknasetursins og Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður.

Byggðastofnun styrkti auk þess verkefnið myndarlega í fimm ár, frá 2019 og fram til loka þessa árs. Verkefnið hlaut einnig styrki frá Innviðasjóði Rannís, Nýsköpunarsjóði námsmanna, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Samfélagssjóði Háskóla Íslands og Rannsóknasjóði Haralds Sigurðssonar og Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur.

Mörg af héraðsskjalasöfnunum lögðu einnig til lán á sáttanefndabókum úr fórum sínum til skráningar og birtingar og verkefnið er því heildarefnisskráning nærri allra sáttabóka á landinu og er gott dæmi um hvernig hægt er að ná miklum árangri með góðri samvinnu margra aðila. Á annan tug starfsmanna norðan og sunnan heiða tóku þátt í verkefninu.

Birting verkefnisins er í veflægum gagnagrunni sem er opinn almenningi á vefsíðu Þjóðskjalasafns Íslands. Fyrir fræðimenn og notendur þessara gagna sem nú eru orðin aðgengileg á vef Þjóðskjalasafns opnast nýjar leiðir í réttarfarsrannsóknum og skoðun á einstökum málum og tegundum mála sem komu til úrskurðar hjá sáttanefndum. Sáttanefndagrunnurinn er birtur í samtengdum gagnagrunni með dómabókagrunni Þjóðskjalasafns, sem nú hefur fengið nýtt heiti: Dóma- og sáttabækur.

Þessi misserin er verið að endurskoða alla birtingu gagna á miðlunarvef Þjóðskjalasafns, heimildir.is, og verða sáttanefndarbækurnar ásamt dómabókunum settar í nýjan búning þegar þar að kemur. En gögnin eru aðgengileg hér nú þegar þótt framsetning eigi eftir að breytast.

Dóma- og sáttabókagrunnur opnaður - skjámynd 19.7.24

Skjámynd af nýja gagnagrunninum.

Rannsóknasetur HÍ á Norðurlandi Vestra

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi Vestra.