Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Ný aðgerðaáætlun samráðshóps þjóðskjalasafna í Evrópu samþykkt

12. desember 2024

Á fundi hópsins í Búdapest í október síðastliðnum var samþykkt aðgerðaáætlun í 10 liðum til næstu fimm ára fyrir nýja evrópska stefnu í skjalamálum.

AGE fundur í Búdapest 14.10.2024

European Archives Group (EAG) er samráðshópur þjóðskjalasafna í Evrópu sem starfar sem ráðgefandi sérfræðihópur fyrir Evrópuráðið í málefnum skjalasafna. Í lok maí var samþykkt ný evrópsk stefna í skjalamálum fyrir 2025-2030. Á síðasta fundi hópsins í Búdapest var svo samþykkt aðgerðaáætlun til útfærslu á stefnunni. Á grundvelli stefnunnar voru mótaðar 10 aðgerðir fyrir söfnin, tvær á hverju ári til næstu fimm ára.

Nýja evrópska stefnan tengir saman stefnu og lagagerðir ESB við núverandi áskoranir á sviði skjalasafna og býður upp á stefnumótandi leiðbeiningar fyrir skjalasöfn. Henni er skipt í tvö megin þemu:

  • Skjalasöfn styðji við lýðræði

  • Traust almennings á skjalasöfn í stafrænum heimi sé tryggt

Aðgerðaáætlunin tekur á málefnum svo sem sjálfstæði skjalasafna og starfi þeirra; þátttöku safnanna í þróun borgaralegs samfélags; gervigreind; gagnadrifnu hagkerfi; rafrænum auðkennum og undirskriftum og áframhaldandi stafrænum umbreytingum opinberrar þjónustu og fleiru.

Aðgerðaáætlun EAG fyrir evrópska stefnu í skjalamálum má lesa hér.

Evrópsku stefnuna í skjalamálum má lesa hér.