Málþing um einkaskjalasöfn: „Hverju á að henda?“
3. júní 2025
Opið málþing Hollvinasamtaka Þjóðskjalasafns Íslands fór fram miðvikudaginn 21. maí í fundarsal safnsins. Yfirskrift málþingsins var „Hverju á að henda? Eiga skjöl einstaklinga erindi á skjalasöfn?“ Fjallað var um mikilvægi söfnunar, skráningar og varðveislu einkaskjala, og var dagskráin fjölbreytt og fræðandi. Þá var við þetta tilefni afhent til varðveislu einkaskjalasafn Páls Sigurjónssonar verkfræðings.

Þórunn Marel Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri einkaskjalasafna, hóf málþingið með erindinu „Viljið þið hirða þetta?“ þar sem hún ræddi um söfnun einkaskjala og hlutverk Þjóðskjalasafns í því samhengi.
Því næst tók til máls Þórunn Guðmundsdóttir sagnfræðingur sem sagði frá skráningu skjalasafns Páls Sigurjónssonar, verkfræðings og fyrrverandi forstjóra Ístaks. Að erindi hennar loknu afhentu börn Páls – Bjarndís, Gísli, Þórunn og Sigurjón – skjalasafn föður síns formlega til varðveislu.
Lokaerindi dagsins flutti Ólafur Arnar Sveinsson, sviðsstjóri fræðslu og rannsókna, þar sem hann fjallaði um vitundarvakningu um mikilvægi einkaskjalasafna undir yfirskriftinni „Skjöl sem skipta máli“.
Fundarstjóri var Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður Hollvinasamtaka Þjóðskjalasafns Íslands. Góð mæting var á viðburðinn og sköpuðust líflegar umræður að erindum loknum.
Einkaskjalasafn Páls Sigurjónssonar er fyrsta safnið sem Hollvinasamtök Þjóðskjalasafns tekur til úrvinnslu og skráningar. Með þessu verkefni stíga samtökin mikilvægt skref í átt að því markmiði að styðja við söfnun, varðveislu og skráningu einkaskjalasafna, vekja athygli á mikilvægi einkaskjalasafna og hvetja einstaklinga og félagasamtök til að leggja sitt af mörkum til að tryggja varðveislu þeirra til framtíðar. Skráningarvinnan var unnin af Þórunni Guðmundsdóttur og í nánu samstarfi við sérfræðinga Þjóðskjalasafns.

Á myndinni eru Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður, Þórunn Guðmundsdóttir og börn Páls; Bjarndís, Gísli, Þórunn og Sigurjón.