Kristjana Kristinsdóttir kveður Þjóðskjalasafn eftir brautryðjandastarf í 38 ár
15. desember 2025
Kristjana Kristinsdóttir fagnaði sjötugsafmæli sínu 11. desember með samstarfsfólki sínu á Þjóðskjalasafni. Á næstum fjórum áratugum hefur Kristjana unnið mikið mótunarstarf í skjalavörslu og skilur eftir sig djúp spor í starfsemi safnsins.

Kristjana kom til starfa á Þjóðskjalasafni árið 1988 en þá unnu um 10 manns á safninu. Eftir nokkur ár í starfi tók Kristjana við sviðsstjórastarfi sem hún sinnti um tveggja áratuga skeið. Á þeim tíma voru fyrstu skrefin stigin í mótun regluverks fyrir skjalastjórn opinberra aðila, handbækur voru gefnar út og sett á fót námskeið til að styðja við ráðgjöf til opinberra aðila um skjalahald sitt.
Kristjana var einnig brautryðjandi í kennslu í skjalfræði og kenndi fyrsta námskeiðið við Háskóla Íslands fyrir 40 árum, árið 1985. Fyrstu árin kenndi hún stök námskeið en síðar þróaðist skjalfræðin upp í aukagrein í skjalfræði og að lokum diplómanám í hagnýtri skjalfræði.
Ýmsar handbækur hefur Kristjana ritað í gegnum tíðina og margar sem enn er stuðst við. Þær snúa bæði að skjalahaldi afhendingarskyldra aðila, sem og skjalalestri eldri skriftar, hefti sem enn er á leslista sagnfræðinema og hefur nú verið gefið út rafrænt í opnum aðgangi.
Rannsóknir Kristjönu á skjalasöfnum hafa einnig verið fyrirferðarmiklar á ferli hennar en þar ber hæst doktorsverkefni hennar í sagnfræði sem gefið var út í bókinni Lénið Ísland. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld. Einnig hefur hún ritað fjölmargar greinar á löngum ferli og væntanlegt er nýtt rit sem ber heitið Leyndarskjalasafn konungs. Skjöl um Ísland, Færeyjar og Grænland á 15.-19. öld, sem Þjóðskjalasafn mun gefa út.
Í tilefni afmælisins og starfslokanna tók Njörður Sigurðsson aðstoðarþjóðskjalavörður skemmtilegt viðtal við Kristjönu um ferilinn fyrir hlaðvarp safnsins Til skjalanna, sem birt var á afmælisdaginn og er aðgengilegt á vefsíðu safnsins, Spotify og öðrum efnisveitum.
Kristjana Kristinsdóttir

