Jóladagatal Þjóðskjalasafns 2024 - Jólaskjalatal
5. desember 2024
Nú fyrir þessi jól stendur Þjóðskjalasafn að jóladagatali, nokkurs konar jólaskjalatali, þar sem kynnt eru sýnishorn úr safnkostinum til fróðleiks og skemmtunar á aðventunni. Þau vísa ýmist til atriða tengdum jólunum eða ákveðinna viðburða sem hafa átt sér stað í desember.
Markmiðið er ekki aðeins að halda í ríka hefð jóladagatala heldur einnig kynna fyrir almenningi einstök skjöl sem bregða birtu á atburði fortíðarinnar og fjölbreytnina í safnkostinum. Þá er verkefnið enn fremur liður í að gera safnkostinn aðgengilegan og varpa bæði ljósi á varðveislu tiltekinna gagna og starfsemi safnsins.
Meðal skjala sem þegar hafa birst eru sýnishorn úr dóma- og þingbókum sýslumanna um áfengisdrykkju á aðventunni, umsagnir Kvikmyndaeftirlits ríkisins um kvikmyndir sem jafnan hljóta töluvert áhorf yfir jólin, bréf frá bónda dagsett 3. desember 1770 til Landsnefndarinnar fyrri um nauðsynlegur umbætur á íslensku samfélagi og handrit af upplesnum hádegisfréttum Ríkisútvarpsins frá 4. desember 1965.
Jólaskjalatalið er birt á Facebook-síðu Þjóðskjalasafns með stuttum kynningartextum og myndum af viðkomandi skjölum.