Hverju á að henda? Eiga skjöl einstaklinga erindi á skjalasöfn?
15. maí 2025
Opið málþing Hollvinasamtaka Þjóðskjalasafns Íslands fer fram miðvikudaginn 21. maí í fundarsal safnsins á Laugavegi 162 kl. 16:00-17:30. Yfirskrift málþingsins er „Hverju á að henda? Eiga skjöl einstaklinga erindi á skjalasöfn?“

Skjalasöfn opinberra aðila eru stærstur hluti safnkosts Þjóðskjalasafns Íslands en færri vita að þar er einnig varðveitt stærsta safn einkaskjala á Íslandi. Einkaskjöl eru heimildir um þjóðarsöguna og eru ekki síður mikilvægar heimildir um söguna en gögn opinberra aðila. Þau geta jafnvel opnað nýja sýn á sögu fyrri tíma.
Á málþinginu verða flutt þrjú erindi sem snúa meðal annars að skilgreiningu á einkaskjalasöfnum, ýmsum áskorunum um aðföng og meðhöndlun þeirra og ekki síst vitund um gildi varðveislu einkaskjalasafna.
Málþingið hefst kl. 16:00 en áætlað er að því ljúki kl. 17:30.
Dagskrá:
„Viljið þið hirða þetta?“ Einkaskjöl, söfnun þeirra og varðveisla. Þórunn Marel Þorsteinsdóttir verkefnastjóri einkaskjalasafna á Þjóðskjalasafni
Á ekki bara að henda þessu? Skráning skjalasafns Páls Sigurjónssonar fyrrverandi forstjóra Ístaks. Þórunn Guðmundsdóttir sagnfræðingur og fyrrum skjalavörður í Þjóðskjalasafni
Í tengslum við erindi Þórunnar munu börn Páls, Bjarndís, Gísli, Þórunn og Sigurjón afhenda safninu skjalasafn föður síns en það var skráð utan safnsins og afhent fullfrágengið af Þórunni Guðmundsdóttir.
Skjöl sem skipta máli: Vitundarvakning um mikilvægi einkaskjalasafna. Ólafur Arnar Sveinsson sviðsstjóri fræðslu og rannsókna á Þjóðskjalasafni
Fundarstjóri er Steinunn Valdís Óskarsdóttir formaður Hollvinasamtaka Þjóðskjalasafns Íslands.