Hvað má lesa úr dómsskjölum? Rannsóknadagur Þjóðskjalasafns 2025
14. október 2025
Á árlegum Rannsóknadegi 9. október síðastliðinn var kastljósinu beint að einu af stærri rannsóknaverkefnum Þjóðskjalasafns, útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi sem starfaði árin 1573 til 1800.

Skjöl Yfirréttarins eru merkilegar heimildir um mannlíf og samfélag á Íslandi. Þau eru heimild um réttarfar í landinu en ekki síður dýrmæt heimild um fólkið sem kom fyrir réttinn og sagði frá lífi sínu og kjörum. Útgáfa Yfirréttarins eykur til muna aðgengi að þessum áhugaverðu heimildum en auk prentaðrar útgáfu verða skjölin og útgáfan einnig gerð aðgengileg á endurbættum vef Þjóðskjalasafns þegar fram líða stundir.
Sérstakir gestir á Rannsóknadegi voru Jörundur Kristjánsson, skrifstofustjóri á Alþingi og fulltrúi í ritnefnd Yfirréttarins á Íslandi og Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar. Báðir ávörpuðu gesti og ræddu þýðingu rannsóknarverkefnisins og útgáfunnar. Fundarstjóri var Brynhildur Ingvarsdóttir, fagstjóri miðlunar og útgáfu á Þjóðskjalasafni.
Fyrirlesarar á málþinginu beindu svo sjónum að ólíkum hliðum Yfirréttarins í erindum sínum en þar kom spilling nokkuð við sögu en einnig kostnaðarsamar málaflækjur.
Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir verkefnastjóri heimildaútgáfu og ritstjóri Yfirréttarins á Íslandi flutti erindið „„Dæmið rétta dóma.“ Um Yfirréttinn og réttarfarið í landinu í bréfum til Landsnefndarinnar fyrri.“
Í fyrirlestrinum fléttaði hún saman þá sýn sem birtist á réttarfar í landinu og starfsemi Yfirréttarins í heimildum Landsnefndarinnar fyrri 1770–1771 sem Þjóðskjalasafn hefur áður gefið út í samstarfi við Sögufélag. Þar er að finna harkalega gagnrýni á íslenskt réttarfar og þegar dómar og skjöl Yfirréttarins áratugina áður eru gaumgæfð er ekki annað að sjá en að einhver fótur hafi verið fyrir gagnrýninni.
Í skjölunum má finna mörg dæmi um réttarneitanir sýslumanna, þar sem þeir reyndu að koma í veg fyrir að dómum þeirra væri áfrýjað til hærri réttar. Stundum voru sýslumenn sektaðir fyrir of harkalega framgöngu í málarekstri sínum og dómaframkvæmd eða sviptir embætti sem þeim tókst þó oftast að fá aftur.
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, skjalavörður og ritstjóri Yfirréttarins á Íslandi flutti erindið „Hvenær falsar maður skjal og hvenær falsar maður ekki skjal? Þrjú tilbrigði við hagræðingu sannleikans í fimmta bindi Yfirréttarins á Íslandi.“
Þar ræddi hún þrjú dæmi um málsskjöl í fimmta bindi Yfirréttarins sem setja fram fullyrðingar sem stangast á við önnur skjöl í þessum dómsmálum. Allur gangur var hins vegar á því hvort sú ásökun hafi verið borin fram á sínum tíma að skjalið væri falsað. Þessi skjöl vekja áhugaverðar spurningar um réttarvenju á Íslandi á 18. öld og notkunarmöguleika dómsskjala í fræðilegum rannsóknum dagsins í dag.
Már Jónsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands flutti erindið „Óþarfa mæða og kostnaður. Síðustu orð Yfirréttarins 21. júlí 1800.“ Umfjöllunarefnið var síðasta málið sem rekið var fyrir Yfirréttinum en það var landamerkjadeila í Skagafirði sem hafði valdið vinslitum á milli nákominna ættingja. Málshefjandi var Páll Sveinsson á Steinsstöðum og til varnar séra Eggert Eiríksson í Glaumbæ, eigandi Reykja. Hann og kona Páls, Guðrún Jónsdóttir, voru bræðrabörn.
Þegar málið kom fyrir Yfirrétt hafði dómstigið í raun verið lagt niður með konungsbréfi sem var ókomið til landsins. Í dómnum sátu helstu embættismenn landsins og þeim þótti tíma sínum illa varið við að leggja mat á svo augljósan ágreining og fóru hörðum orðum um áfrýjendur.
Erindin vöktu ýmsar spurningar meðal þinggesta og fjörugar umræður sköpuðust sem héldu svo áfram í útgáfuhófi í lok dagskrár til að fagna útgáfu fimmta bindis Yfirréttarins.

Jörundur Kristjánsson, skrifstofustjóri á Alþingi og fulltrúi í ritnefnd Yfirréttarins á Íslandi

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, skjalavörður og ritstjóri Yfirréttarins á Íslandi

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, verkefnastjóri heimildaútgáfu og ritstjóri Yfirréttarins á Íslandi

Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar
Sýnishorn af skjölum Yfirréttarins ásamt útgefnum bindum I-V.