Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Húsfyllir á Rannsóknadegi Þjóðskjalasafns 2024

25. nóvember 2024

Húsfyllir var á Rannsóknadegi Þjóðskjalasafns þann 14. nóvember þegar gagnagrunnar í sögulegum rannsóknum og miðlun voru ræddir. Rúmlega 70 gestir sóttu ráðstefnuna og pallborðsumræður sem voru að loknum erindum framsögufólks.

Rannsóknadagur 2024-1

Ráðstefnuna opnaði Ólafur Arnar Sveinsson sviðsstjóri fræðslu og miðlunar og fyrsti fyrirlesarinn var Guðfinna Hreiðarsdóttir forstöðumaður Héraðsskjalasafnsins á Ísafirði sem sagði frá skráningu í sóknarmannatalagrunn sem unnin hefur verið í fjarvinnslu með mjög góðum árangri síðastliðin 15 ár.

Annað gagnagrunnsverkefni sem hefur verið unnið í samstarfi milli landshluta er gagnagrunnur sáttanefndabóka, sem Harpa Rún Ásmundsdóttir verkefnastjóri hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra hefur stýrt. Harpa Rún kynnti gagnagrunninn og heimildirnar sem eru aðgengilegar í gegnum hann, en færa má rök fyrir því að þær hafi fram til þessa verið lítt aðgengilegar sem heimildir um hversdagslíf Íslendinga fyrr á öldum.

Sigríður Hjördís Jörundsdóttir skjalavörður á Þjóðskjalasafni sýndi svo í verki hvernig hægt er að nota gagnagrunna í rannsóknum með skemmtilegum dæmum úr könnun sinni á flakki og flökkurum í sveitum landsins á 300 ára tímabili.

Þórunn Marel Þorsteinsdóttir skjalavörður á Þjóðskjalasafni sýndi enn fremur hvernig gagnagrunnar og stafrænar endurgerðir fumheimilda sem tengdar eru gagnagrunnum og aðgengilegar í gegnum vefsvæði Þjóðskjalasafns geta gefið nýja vídd í rannsóknir. Þórunn elti æviferil Baldvins Hinrikssonar sem uppi var á 19. öld og brá upp skýrri mynd af skrautlegu lífi hans.

Pétur Húni Björnsson sérfræðingur í stafrænum hugvísindum fór bakdyramegin að gagnagrunnum og fræddi ráðstefnugesti um smíði og hagnýtingu Sögulegs mann- og bæjatals. Pétur hefur langa reynslu af gagnavinnslu og lýsti aðferðafræðinni sem hann notar við að „sætta og samstilla gögn“ í nothæfa gagnagrunna.

Að lokum ræddi Unnar Ingvarsson fagstjóri stafrænnar endurgerðar á Þjóðskjalasafni íslands hvert skyldi stefna með þróun gagnagrunna. Hvaða gagnasöfn nýttust á sem fjölbreyttastan hátt, hverju skyldi huga að við þróun og skráningu í gagnagrunna og mikilvægi samvinnu ólíkra aðila og stofnana.

Augljóst er að mikill áhugi er á þessu efni og ánægja gesta með Rannsóknadaginn var mikil. Nánari lýsingu á erindum fyrirlesara má sjá hér og innan skamms verða upptökur fyrirlestranna aðgengilegar á vef Þjóðskjalasafns.

Rannsóknadagur 2024-Guðfinna Hreiðarsdóttir

Guðfinna Hreiðarsdóttir

Rannsóknadagur 2024-Pallborð

Pallborðsumræður í kjölfar erinda