Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Hjörleifur Guttormsson afhendir einkaskjalasafn sitt til varðveislu

20. janúar 2026

Fimmtudaginn 15. janúar afhenti Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, einkaskjalasafn sitt formlega til varðveislu á Þjóðskjalasafni Íslands.

Af því tilefni bauð Þjóðskjalasafn til viðburðar í samstarfi við Hollvinasamtök Þjóðskjalasafns og var hann vel sóttur. Rúmlega 30 manns voru viðstaddir viðburðinn og var fundarstjórn í höndum formanns Hollvinasamtakanna, Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Ólafur Arnar Sveinsson, sviðsstjóri miðlunar og rannsókna flutti erindi um innihald skjalasafnsins sem spannar alls um 54 hillumetra. Safnið endurspeglar ekki síst langan og fjölbreyttan starfsferil Hjörleifs sem náttúrufræðings og rithöfundar. Í skjalasafninu er að finna mikið magn gagna sem varða umhverfismál, safnamál, stjórnmálaþátttöku og eigin ritsmíðar Hjörleifs. Þar eru einnig fjölmörg bréf auk dagbóka en aðgengi að hluta gagnanna er takmarkað til ársins 2040 í samræmi við ákvæði afhendingarinnar.

Hjörleifur vann sjálfur að frágangi og skráningu safnsins í samráði við sérfræðinga Þjóðskjalasafns en hann flutti erindi þar sem hann fjallaði um samstarf sitt við Þjóðskjalasafn. Í erindinu sagði hann frá tengslum sínum við skjöl og bækur allt frá barnæskuárum á Hallormsstað til námsára í Leipzig, í gegnum kennslu og rannsóknir í Neskaupstað og starfsferil alla tíð. Skjalasafnið hafi vaxið með árunum sem liðu. Þá lýsti Hjörleifur aðdraganda þess að einkaskjalasafn hans er nú í vörslu Þjóðskjalasafns og vitnaði í dagbókarfærslur sínar um fráganginn á safninu.

Formlegri dagskrá lauk með undirritun Hjörleifs og Hrefnu Róbertsdóttur þjóðskjalavarðar á samningi um afhendingu safnsins. Gestir nutu kaffiveitinga í framhaldinu en í lok þeirra steig tvíburabróður Hjörleifs, Gunnar Guttormsson, í pontu og flutti frumsamið kvæði frá árinu 2016 sem hann söng við lag sænska söngvarans og lagahöfundarins Olle Adolphsons, Österlensvisan en lagið mun upphaflega vera skoskt þjóðlag sem kallast Maa Bonny Lad.

Hjorleifur Guttormsson

Hjörleifur Guttormsson segir frá einkaskjalasafni sínu.

Olafur Arnar Sveinsson - afhending HG

Ólafur Arnar Sveinsson sviðsstjóri miðlunar og rannsókna.