Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Handalögmál, móðganir og varðhald á heimili héraðsdómara - Yfirrétturinn á Íslandi IV. bindi

24. september 2024

Úfgáfu fjórða bindis dóma og skjala Yfirréttarins á Íslandi verður fagnað á Lagadaginn 2024 sem haldinn er föstudaginn 27. september á Hilton Reykjavík Nordica.

Yfirrétturinn á Íslandi IV. bindi

Í þessu fjórða bindi útgáfu dóma og skjala Yfirréttarins birtast dómar áranna 1733–1741 en ritröðin er gefin út af Þjóðskjalasafni Íslands og Sögufélagi.

Málin sem komu fyrir réttinn voru að venju af ýmsum toga en undirliggjandi í mörgum þeirra eru ásakanir um afglöp eða yfirgang sýslumanna í starfi. Í sumum tilfellum lá áralöng óvild að baki málaferlunum en stundum reið ógæfan yfir fyrirvaralaust, líkt og í manndrápsmáli Ásmundar Þórðarsonar úr Skagafjarðarsýslu.

Stjúpfaðir og stjúpdóttir voru sótt til saka fyrir barneignarbrot í Dalasýslu, virtur maður í Húnavatnssýslu hafðist sumarlangt við í skemmu eftir að hafa verið meinað um ábúð á eignarjörð sinni og annar ungur maður í sömu sýslu var gerður arflaus fyrir leti. Áfrýjunarferli margra þessara dómsmála til Yfirréttarins var óhefðbundið og starfssemi réttarins tók ýmsum breytingum á þessum árum.

Útgáfu bókarinnar verður fagnað á Lagadaginn 2024 þar sem í fyrsta skipti verður efnt til réttarsögumálstofu í samstarfi við Sögufélag sem helguð verður Yfirréttinum á Íslandi sem starfaði á árunum 1563-1800. Málstofan ber heitið „Handalögmál, móðganir og varðhald á heimili héraðsdómara - Yfirrétturinn á 18. öld“. Málstofustjóri verður Viðar Pálsson dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands og framsögur flytja Þorsteinn Magnússon dómari við Héraðsdóm í Reykjavík og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir sagnfræðingur, skjalavörður við Þjóðskjalasafn Íslands og einn ritstjóra Yfirréttarins á Íslandi.

Lagadagurinn er haldinn af Lögmannafélagi Íslands, Lögfræðingafélagi Íslands og Dómarafélagi Íslands og hægt er skoða dagskrá hans og skrá sig á ráðstefnuna hér.

Bókin er fáanleg í helstu bókaverslunum og á vefsíðu Sögufélags hér.