Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Fræðsluheimsókn starfsfólks héraðsskjalasafna í Þjóðskjalasafn

13. desember 2024

Dagana 12.-15. nóvember síðastliðinn tók Þjóðskjalasafn á móti starfsfólki nokkurra héraðsskjalasafna í fræðsluheimsókn.

Fræðsluheimsókn starfsfólks héraðsskjalasafna í Þjóðskjalasafn-forvarsla

Hugmyndin að fræðsluheimsókninni kom frá Héraðsskjalasafninu Ísafirði sem óskaði eftir að fá að koma í heimsókn í Þjóðskjalasafn og fræðast um starfsemina sem lið í símenntun starfsfólks safnsins. Fleiri héraðsskjalasöfn bættust svo í hópinn og úr varð að sex starfsmenn frá fjórum héraðsskjalasöfnum sóttu fræðslu um starfsemi Þjóðskjalasafns þessa daga, frá héraðsskjalasöfnum Austur-Skaftafellssýslu, Rangæinga og Vestur-Skaftafellssýslu, Kópavogs og Ísafirði.

Starfsfólk héraðsskjalasafnanna fékk fræðslu um fjölbreytt verkefni Þjóðskjalasafns, svo sem um heimildaútgáfu, stafræna endurgerð, miðlun, ráðgjöf og eftirlit, rafræna skjalavörslu, viðtöku pappírsskjalasafna, upplýsingaþjónustu og frágang og skráningu skjala. Alls komu 14 starfsmenn Þjóðskjalasafns að mismunandi þáttum fræðslunnar.

Góður rómur var gerður að heimsókninni og hefur Þjóðskjalasafn boðið starfsfólki allra héraðsskjalasafna að þiggja slíka fræðslu.

Fræðsluheimsókn starfsfólks héraðsskjalasafna í Þjóðskjalasafn-upplýsingaþjónusta