Einkaskjalasöfn í öndvegi á opnu húsi Þjóðskjalasafns
18. júní 2025
Um tuttugu manns mættu á opið hús Þjóðskjalasafns Íslands föstudaginn 6. júní síðastliðinn. Á opna húsinu var áhersla lögð á mikilvægi einkaskjalasafna, varðveislu þeirra og skráningu.
Gestum gafst kostur á að skoða valin skjöl úr einkaskjalasöfnum og spjalla við sérfræðinga um skjalavörslu, skráningu safna, frágang í umbúðir og annað varðandi langtímavarðveislu. Umræður fóru um víðan völl, meðal annars um varðveislugildi, aðgengi að gögnum og mikilvægi frumheimilda fyrir rannsóknir framtíðarinnar. Ánægja var með viðburðinn og áhugi gesta á efninu endurspeglaði sívaxandi vitund um gildi einkaskjalasafna fyrir sögu og menningu samfélagsins.
Í ljósi jákvæðra viðbragða stefnir Þjóðskjalasafn að því að halda fleiri sambærilega viðburði eftir sumarfrí, þar sem áfram verður unnið að því að efla vitund og áhuga almennings á varðveislu einkaskjala. Einnig er áformað að gefa áhugasömu fólki kost á að taka virkan þátt í skráningu og frágangi einkaskjalasafna, í samvinnu við sérfræðinga safnsins. Með því gefst fólki einstakt tækifæri til að leggja sitt af mörkum til varðveislu sögulegra heimilda.
Ólafur Arnar Sveinsson sviðsstjóri fræðslu og rannsókna.
Sýnishorn úr einkaskjalasöfnum.
Þórunn Marel Þorsteinsdóttir verkefnastjóri einkaskjalasafna ræðir við gesti.
Gestir á opnu húsi.