Aukinn kraftur í stafrænni miðlun
10. nóvember 2023
Eitt af markmiðum Þjóðskjalasafns samkvæmt stefnu þess er að auka aðgengi að safnkosti með því að miðla honum á aðgengilegan hátt með stafrænum hætti.
Eitt af markmiðum Þjóðskjalasafns samkvæmt stefnu þess er að auka aðgengi að safnkosti með því að miðla honum á aðgengilegan hátt með stafrænum hætti. Á undanförnum mánuðum hefur því verið settur aukinn kraftur í skönnun, ljósmyndun og miðlun gagna í safninu. Keyptir hafa verið skannar og myndavélar þannig að nú gefst safninu kostur á að afrita gögn af ólíkum stærðum og gerðum. Þá hefur stöðugildum í stafrænni endurgerð verið fjölgað um með ráðningu tveggja nýrra starfsmanna sem eingöngu vinna að stafrænni endurgerð.
Safnið vinnur reglulega að samstarfsverkefnum þar sem lögð er áhersla á skönnun ákveðinna gagnaflokka. Áfram verður haldið með slík verkefni en einnig lögð áhersla á skönnun skjala sem hafa sögulegt mikilvægi, eru í mikilli notkun meðal notenda og eru í hættu á að glatast vegna ástands skjalanna. Jafnframt verður horft til þess að stafræn afritun gagna geti aukið aðgang almennings að ákveðnum skjalaflokkum. Þegar hafa verið gerðar tilraunir með véllestur á handskrifuðum texta og standa vonir til að í framtíðinni verði hægt að orðaleita mikið magn texta og gjörbylta þar með leitarbærni gagnanna.
Nú og á næstu misserum er meðal annars unnið að því að skanna teikningar og önnur gögn úr safni Húsameistara ríkisins, ýmis gögn úr safni Búnaðarfélags Íslands og Landbúnaðarráðuneytis, bréfabækur sýslumanna og fasteignamöt auk gagna gömlu dönsku stjórnardeildanna; Rentukammers og Kansellís ásamt skjölum úr biskupsskjalasafni. Þá verður einnig hugað að mun yngri skjalasöfnum sem mögulegt er að gera aðgengileg með magnskönnun.
Samhliða stafrænni endurgerð með skönnun eða ljósmyndun verður unnið að því að auka leitarmöguleika gagna með ýmsum hætti, til dæmis í gegnum veflæga skjalaskrá safnsins og með vefsjá, en nú þegar er kirkjubókum miðlað á þann hátt á vefnum Heimildir.is.
Undanfarin ár hefur Þjóðskjalasafn skannað og birt um eina milljón mynda af skjölum úr safnkosti og fyrirséð að á næstu misserum mun þessi fjöldi aukast mikið. Með því verður bylting í aðgengi gagnanna, breyting frá því að þurfa að panta gögn á lestarsal yfir í að geta skoðað þau hvar sem er í heiminum.