Um 7.000 landsmenn hafa sótt um vegabréf á Ísland.is
13. mars 2024
Opnað var fyrir forskráningu og greiðslu fyrir vegabréfsumsóknir á Ísland.is í október síðasta árs. Síðan þá hafa um 7.000 manns sótt um vegabréf með rafrænum hætti eða um helmingur umsækjenda.
Mikil ánægja er með lausnina og sér í lagi fyrir foreldra sem eru að sækja um fyrir börn undir þeirra forsjá. Ferlið gengur þannig fyrir sig að umsækjendur forskrá umsókn fyrir sig eða barn undir þeirra forsjá sem sækja á um vegabréf fyrir ásamt því að velja afhendingarstað vegabréfsins. Þegar skráningu á vefnum er lokið getur umsækjandi mætt til sýslumanns til að ljúka þeim hluta umsóknarferlis sem krefst mætingar, svo sem myndatöku, undirritun og fingrafaraskráningu.
Eftir forskráningu vegabréfa þarf að mæta í myndatöku innan 30 daga. Forsjáraðilar þurfa að samþykkja útgáfu vegabréfs fyrir barn innan 7 daga og nægir þá að annar forsjáraðilinn mæti með barn sitt í myndatöku og getur gert það á hvaða skrifstofu sýslumanns sem er á landinu óháð búsetu.