Fara beint í efnið

Opnun starfsstöðvar Persónuverndar á Húsavík í samstarfi við sýslumanninn á Norðurlandi eystra

1. október 2021

Ný starfsstöð Persónuverndar á Húsavík hefur verið formlega tekin í notkun.

Húsavík

Ný starfsstöð Persónuverndar á Húsavík hefur verið formlega tekin í notkun.
Uppsetning hennar fór fram í góðu samstarfi við embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra. 
Svavar Pálsson, sýslumaðurinn á Norðurlandi Eystra, sagði að „sýslumannsembættin væru framúrskarandi valkostur þegar horft væri til yfirstandandi þróunar rafrænnar stjórnsýslu. Innviðir embættanna, þekking starfsfólks og reynsla hámarkaði þau gæði sem í húfi væru og stuðlaði beinlínis að bættri þjónustu hins opinbera“. 
Formleg opnun starsfsstöðvarinnar var 9. september sl. og voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, viðstaddar ásamt Svavari. „Af því tilefni sagði dómsmálaráðherra: Persónuvernd er nauðsynleg til að tryggja hagsmuni einstaklingsins í lýðræðissamfélagi. Möguleikar tækninnar mega ekki trompa rétt okkar til friðhelgi einkalífsins. En það eru líka möguleikar tækninnar sem gera okkur kleift að setja niður störf án staðsetningar.“ Forstjóri Persónuverndar sagði jafnframt: „Við höfum fundið fyrir miklum velvilja gagnvart þessu verkefni bæði í fjórðungnum og utan hans. Ég bind vonir við að hægt verði að tryggja áframhaldandi fjármögnun verkefnisins, til hagsbóta bæði fyrir Persónuvernd og landsbyggðina.“