Listi yfir sveina með starfsréttindi á Ísland.is
12. desember 2024
Nýr listi yfir sveina með starfsréttindi hefur verið birtur á Ísland.is. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkur listi er birtur opinberlega á einum miðlægum stað. Með listanum er m.a. hægt að sjá hvort iðnaðarmenn sem bjóða fram þjónustu sína séu með tilskilin réttindi.
Listi sem þessi er mjög mikilvægur þar sem auðvelt er að nálgast upplýsingar um hverjir eru með gild starfsréttindi og búa yfir fagkunnáttu. Hann byggir á gagnagrunni yfir 42 iðngreinar. Meðal þeirra eru fjölbreyttar greinar á borð við bakaraiðn, bifvélavirkjun, blikksmíði, flugvélavirkjun, húsasmíði, kjötiðn, ljósmyndun, matreiðslu, málaraiðn, múraraiðn, pípulagnir, prentun, rafvirkjun, snyrtifræði og vélsmíði.
Ekki hefur enn verið unnið úr öllum eldri gögnum en von er á þeim upplýsingum innan tíðar.
Gagnagrunnurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda til að bæta umgjörð verk- og starfsnáms. Hann er samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og sýslumanna.
Sýslumaður á Suðurlandi annast umsýslu gagnagrunnsins frá 1. janúar 2025.