Tilkynningarferli
Framkvæmdir í flokki B í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana þarf að tilkynna til Skipulagsstofnunar sem metur í hverju tilviki hvort þær skuli háðar umhverfismati. Það sama á við þegar fyrirhuguð framkvæmd er undir viðmiðunarmörkum sem tilgreind eru í viðaukanum, en er á verndarsvæði. Ferli við ákvörðun um matsskyldu fyrir tilkynningarskyldar framkvæmdir er eftirfarandi:
Framkvæmdaraðili sendir tilkynningu um framkvæmd til Skipulagsstofnunar sem tekur ákvörðun í hverju tilviki hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Í tilkynningu gerir framkvæmdaraðili grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd, staðsetningu og helstu mögulegu áhrifum hennar og óskar eftir að stofnunin taki ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati.
Skipulagsstofnun leitar umsagna umsagnaraðila eftir eðli máls hverju sinni, svo sem til leyfisveitenda eða fagstofnana. Framkvæmdaraðila er gefinn kostur á að bregðast við umsögnum áður en Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati. Ákvörðun stofnunarinnar er auglýst, birt á Skipulagsgátt og kynnt á vef Skipulagsstofnunar.
Ef ákveðið er að framkvæmdin þurfi umhverfismat, hefur framkvæmdaraðili umhverfismatsferli.
Ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda í flokki B má nálgast í gagnagrunni umhverfismats.