Fara beint í efnið

Vegna eftirlitsmáls Sjúkratrygginga

29. apríl 2022

Sjúkratryggingar vilja koma því á framfæri að sjúklingar sem njóta greiðsluþátttöku stofnunarinnar eiga ekki að bera fjárhagslegt tjón af endurkröfum sem stofnunin kann að gera á veitendur heilbrigðisþjónustu vegna óviðeigandi reikningsgerðar í tengslum við þjónustu sem fellur undir sjúkratryggingar.

Sjúkratryggingar lógó

Stofnunin vill taka þetta sérstaklega fram í ljósi þess að hún hefur orðið þess áskynja að tiltekinn veitandi heilbrigðisþjónustu hefur síðustu daga haft samband við skjólstæðinga sína vegna bréfs sem Sjúkratryggingar sendu honum um mögulega endurkröfu í kjölfar eftirlits stofnunarinnar með reikningsgerð hans. Var honum í bréfinu boðið að koma á framfæri sínum sjónarmiðum vegna mögulegrar endurkröfu.

Viðkomandi virðist þá hafa upplýst þá sem höfðu þegið umrædda þjónustu í góðri trú um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga og tilkynnt þeim að ef til þess komi að hann þurfi að endurgreiða Sjúkratryggingum þá muni hann senda viðkomandi sjúklingum reikning fyrir endurgreiðslunni.

Sjúkratryggingar vilja af þessum sökum árétta að eftirlit stofnunarinnar beinist að þeim sem þiggja greiðslur fyrir hana en ekki að þeim sem þjónustuna þiggja. Viðskipti Sjúkratrygginga við þjónustuveitendur byggjast á trausti og eru útgefnir reikningar alla jafna greiddir án tafa. Einstaka sinnum koma því miður upp tilvik sem kalla á endurkröfu. Slík atvik eiga ekki að hafa fjárhagslegar afleiðingar fyrir notendur þjónustu enda þiggja þeir hana í góðri trú um fagleg vinnubrögð þjónustuveitenda, m.a. hvað reikningsgerð varðar, og að reikningar séu í samræmi við samning hans við Sjúkratryggingar og reglur um greiðsluþátttöku.

Sjúkratryggingar þekkja raunar engin fordæmi þess að þjónustuveitandi áfram rukki til sjúklinga þær upphæðir sem hann ofrukkaði Sjúkratryggingar.

Umrætt eftirlitsmál er enn í ferli milli Sjúkratrygginga og viðkomandi þjónustuveitenda og stofnunin skorar á hann að láta það ekki bitna á sjúklingum, komi til þess að gerð verði endurkrafa á hendur honum.