Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjúkratryggingar Forsíða
Sjúkratryggingar Forsíða

Sjúkratryggingar

Nýr heildarsamningur við SÁÁ styrkir aðgengi og gæði fíknimeðferðar

19. desember 2025

Sjúkratryggingar og SÁÁ að viðstöddum heilbrigðisráðherrra undirrituðu tímamótasamning

Sjúkratryggingar og SÁÁ hafa undirritað nýjan samning um meðferð við fíknsjúkdómi. Með samningnum eru fjórir eldri samningar sameinaðir í einn og markar hann tímamót í íslenskri heilbrigðisþjónustu með auknum sveigjanleika, skýrari gæðakröfum og bættri forgangsröðun í fíknimeðferðum.

,,Nýr samningur markar mikilvægt skref í átt að auknum sveigjanleika, markvissari forgangsröðun, auknum afköstum og skýrari gæðakröfum í fíknimeðferðum á Íslandi. Það er ánægjulegt og mikil tímamót að nú sé kominn nýr heildarsamningur sem eykur aðgengi og stuðlar að heildstæðari þjónustu við fíknisjúkdómum." sagði Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga, við undirritun samningsins.

Samningurinn felur í sér sveigjanlegra meðferðarform þar sem einstaklingar fá meðferð við hæfi. Innleidd verður ný dagdeildarmeðferð á göngudeildum sem sameinar þætti frá inniliggjandi meðferð á Vogi og áframhaldandi sálfélagslega meðferð á Vík. Þetta bætir aðgengi að meðferð og eykur jafnræði, meðal annars fyrir hópa sem innlögn hentar síður. Fíknimóttaka SÁÁ verður efld til að tryggja betri forgangsröðun og að einstaklingar fái viðeigandi úrræði á réttum tíma. Samningurinn leggur jafnframt aukna áherslu á hvata sem tengjast árangri og afköstum, skýrari gæðaviðmið og kostnaðargreiningar. Meðal nýjunga er meðferð vegna spilafíknar. Einnig er barna- og fjölskylduþjónusta efld með auknum stuðningi, fræðslu og sálfræðiþjónustu fyrir börn sjúklinga og fjölskyldur þeirra.

Samningurinn er til fjögurra ára og nemur fjárhagsrammi hans um tveimur milljörðum króna á ári. Hann veitir SÁÁ aukið svigrúm til að forgangsraða meðferð eftir þörfum hverju sinni og tryggir um leið betri, aðgengilegri og heildstæðari þjónustu fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem glíma við fíknsjúkdóma.

,,Það er mikið fagnaðarefni að kominn sé á nýr heildarsamningur við SÁÁ til fjögurra ára en samningurinn endurspeglar áherslu ríkisstjórnarinnar á að fjármagna og auka aðgengi að meðferðarúrræðum vegna fíknivanda. Ég er fullviss um að samningurinn verði til mikilla bóta enda felur hann í sér auknar faglegar kröfur, aukið svigrúm til forgangsröðunar og fjölbreyttari úrræði en áður, s.s. öflugri barna- og fjölskylduþjónustu og meðferð við spilafíkn,” sagði Alma Möller, heilbrigðisráðherra.