Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjúkratryggingar Forsíða
Sjúkratryggingar Forsíða

Sjúkratryggingar

Breyting á greiðsluþátttöku lyfja 1. janúar

22. desember 2025

Breyting á greiðsluþátttöku lyfja tekur gildi 1. janúar

Sjúkratryggingar vilja minna á breytingar á greiðsluþátttökukerfi lyfja sem tekur gildi 1. janúar 2026.

Annars vegar verða gerðar breytingar á greiðsluþrepum en einnig mun greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga miðast við notkun samkvæmt ráðlögðum hámarksskammti lyfjaframleiðanda.

Breytt þrepaskipting

Hlutfallsleg greiðsluþátttaka sjúklinga hefur lækkað umtalsvert að raunvirði á sama tíma og útgjöld sjúkratrygginga hafa aukist verulega. Markmið breytinganna er að bregðast við vaxandi útgjöldum hins opinbera vegna lyfjakaupa en standa jafnframt vörð um að verja einstaklinga fyrir háum útgjöldum sem og einstaka hópa, þ.e. öryrkja, aldraða og börn.

Með breytingunni verður bætt þrepi við greiðsluþátttökukerfið svo þau verða fjögur í stað þriggja. Hámarksgreiðsluþátttaka sjúklinga á ári helst óbreytt, þannig að eins og í núverandi kerfi munu almennir greiðendur ekki greiða meira en 62.000 kr. á ári og öryrkjar, aldraðir og yngri en 22 ára að hámarki 41.000 kr. Greiðslutímabil sem eru í gildi um áramót verða ekki leiðrétt og einstaklingar ljúka þeim óbreyttum. Allir sem hefja nýtt greiðslutímabil á árinu 2026 munu hins vegar greiða samkvæmt nýja kerfinu.

Í fyrsta þrepi greiðir einstaklingurinn lyf að fullu, í öðru þrepi greiðir hann 40% af verði lyfja, í þriðja þrepi greiðir hann 15% af verði lyfja og í fjórða þrepi 7,5%. Þegar lyfjakostnaður hefur náð ákveðnu hámarki, það er 62.000 kr. hjá almennum greiðendum og 41.000 kr. hjá afsláttarhópum, þá fær hlutaðeigandi lyf að fullu greidd af Sjúkratryggingum það sem eftir er af tímabilinu.

Nánari upplýsingar um breytingar á greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði má finna á heimasíðu Stjórnarráðsins í frétt frá 26. september 2025.

Stjórnarráðið | Breytingar á greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði um næstu áramót

Greiðsluþátttaka miðast við ráðlagðan hámarksskammt

Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga mun miðast við notkun samkvæmt ráðlögðum hámarksskammti lyfjaframleiðanda. Eftir breytingu mun ekki fást greiðsluþátttaka á þeim skammti sem er umfram ráðlagðan hámarksskammt. Nýtt fyrirkomulag tekur gildi 1. janúar 2026. Lyfjanotkun sem er grundvöllur mats á því hvort hámarksskammti hafi verið náð reiknast frá þeim tíma. Frá og með 1. apríl 2026 hættir greiðsluþátttaka í þeim hluta sem er umfram ráðlagðan hámarksskammt.

Þá hafa Sjúkratryggingar tekið saman svör við helstu spurningum vegna breytinganna: Greiðsluþátttaka miðast við ráðlagðan hámarksskammt | Sjúkratryggingar