Drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra – skýringar frá Sjúkratryggingum
8. október 2025
Drög að frumvarpi til breytingar á lögum um Sjúkratryggingar, sem heilbrigðisráðherra hefur birt á Samráðsgátt stjórnvalda, hafa vakið upp viðbrögð.

Markmið frumvarpsins er að setja skýrari ramma um samningsgerð og greiðslur utan samninga, án þess að skerða réttindi eða ganga gegn gildandi samningum. Frumvarpið skerpir á skyldu Sjúkratrygginga til að byggja ákvarðanatöku á gagnreyndri meðferð og faglegu hagrænu mati.
Mikilvægt er að árétta að fyrirliggjandi frumvarp felur ekki í sér kollvörpun á núverandi fyrirkomulagi né að ríkið gangi á bak orða sinna.
Ákvæðin sem um ræðir hafa mótast með hliðsjón af reynslu Sjúkratrygginga af samningum við ólíka þjónustuveitendur. Þau miða að auknu gagnsæi í allri samningagerð Sjúkratrygginga og eru í samræmi við ábendingar úr stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar.
Eitt ákvæði frumvarpsins, um skil ársreikninga og annarra fjárhagsupplýsinga, var sérstaklega rætt í samningaviðræðum við sérgreinalækna. Þar var um málamiðlun að ræða, en frumvarpið kveður á um auknar heimildir stofnunarinnar í samræmi við gagnrýni Ríkisendurskoðunar.
Ákvæði um hámarksgildistíma gjaldskrár er nú þegar í lögunum en fram að þessu hefur hugtakið ,,tímabundið“ verið notað og er það óheppilegt. Í umræddum drögum er lagt til að hámarksgildistími verði 12 mánuðir en líkt og ráðherra hefur bent á telja Sjúkratryggingar að það megi skoða hvort unnt sé að lengja hámarksgildistíma að einhverju marki frá því sem nú er lagt til.
Sjúkratryggingar leggja áherslu á áframhaldandi samtal og samvinnu við alla viðsemjendur með það að markmiði að tryggja öfluga og gagnsæja heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.
Hér er slóð á frumvarpið í Samráðsgátt : Samráðsgátt | Mál: S-187/2025
